Innlent

Hraunslettur í gígnum á ný og óróinn rýkur upp

Kristján Már Unnarsson skrifar
Skjáskot tekið um fjögurleytið sýnir hraunslettu í gígnum.
Skjáskot tekið um fjögurleytið sýnir hraunslettu í gígnum. Vefmyndavél Vísis/Skjáskot

Eldgosið í Fagradalsfjalli tók sig upp að nýju í nótt eftir að gosvirkni hafði legið að mestu niðri í fjóra sólarhringa. Eldbjarmi sást í gígnum í kringum miðnætti og fór ekkert á milli mála að þar var opinn jarðeldur með kraumandi kviku. 

Þegar leið á nóttina var greinilegt að gosvirknin var að aukast. Hraunslettur fóru svo að sjást á vefmyndavél Vísis um fjögurleytið. Þetta er fyrsta kvikan sem sést gusast í gígnum frá því á mánudagskvöld.

Skjáskot tekið klukkan 5:15 í morgunVefmyndavél Vísis/Skjáskot

Á óróariti Veðurstofunnar frá jarðskjálftamæli á Fagradalsfjalli sést einnig greinileg breyting. Það sýnir að óróapúlsinn tók að rjúka upp seint í gærkvöldi.

Óróaritið frá mælinum á Fagradalsfjalli, eins og það leit út klukkan fimm í morgun. Það sýnir óróann síðustu tíu sólarhringa. Takið eftir hvernig strikið hefur rokið upp frá miðnætti.

Laust eftir miðnætti fór óróinn hærra upp en hann hefur verið undanfarna fjóra sólarhringa. Er þetta í fyrsta sinn frá því á mánudagskvöld, þegar sýnilegt hraunrennsli hætti frá gígnum, sem óróinn nálgast sömu hæð og hann var í þegar eldgosið var í fullum gangi.

Gígurinn um hálfþrjúleytið í nótt, eins og hann blasti við á vefmyndavél Vísis. Þá var ekki farið að sjást í hraunslettur.Vefmyndavél Vísis/Skjáskot

Hér má sjá gíginn í beinni á vefmyndavél Vísis:

Hér má sjá stöðumat Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld:

Hér má sjá hraunið flæða yfir gígbarmana þegar eldgosið tók kipp á ný fyrir tíu dögum:


Tengdar fréttir

Eldgosið í Fagradalsfjalli orðið stærra en meðalgos á svæðinu

Vísbendingar eru um að það hægi á landssigi við gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að þær breytingar sem nú sjáist á eldgosinu gætu verið byrjunin á endalokunum. Engu sé þó hægt að slá föstu um goslok.

Rauður bjarmi sést á ný í gígnum eftir tveggja sólarhringa goshlé

Eftir tveggja sólarhringa goshlé hafa aftur sést merki um að opnast hafi fyrir glóandi kviku í gígnum í Fagradalsfjalli. Laust eftir miðnætti mátti á vefmyndavél Vísis greinilega sjá rauðleitan bjarma í gígskálinni, þótt ekki væri farið að sjást í hraunslettur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.