Erlent

Reyna að púsla atburðarásinni á Haítí saman og heita því að hafa hendur í hári höfuðpaursins

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjórir hinna handteknu.
Fjórir hinna handteknu. AP/Jean Marc Hervé Abélard

Yfirmenn lögreglunnar á Haítí vinna nú að því að púsla saman þeim upplýsingum sem fyrir liggja um morð Jovenel Moise, forseta landsins, sem skotinn var til bana á heimili sínu aðfaranótt miðvikudags. Hópur þungvopnaðra málaliða réðst á heimili hans og skaut hann til bana, auk þess sem eiginkona hans var særð lífshættulega.

Sautján árásarmenn hafa verið handsamaðir af lögreglu á Haítí og nokkrir voru felldir í átökum við lögregluþjóna. Þrír málaliðar hafa verið skotnir til bana.

Enn er verið að leita að átta málaliðum og er sömuleiðis ekki vitað hver höfuðpaur árásarinnar er en lögreglan hefur heitið því að komast að því.

Tveir hinna handteknu eru með bandaríska ríkisborgararétti en eru upprunalega frá Haítí. Fimmtán þeirra eru frá Kólumbíu og yfirvöld þar segja minnst sex úr hópnum, þar á meðal tveir sem eru dánir, vera fyrrverandi hermenn.

Ivan Duque, forseti Kólumbíu, hefur skipað yfirmönnum hersins og lögreglunnar að hjálpa yfirvöldum Haítí við rannsóknina eins og völ er á.

Hér má sjá mennina sem hafa verið handteknir og vopn og aðra muni sem lögreglan á Haítí hefur lagt hald á.

Haítíska dagblaðið Le Novuelliste segir að meðal þess sem lögreglan hafi lagt hald á séu skotvopn, skotfæri, skotheld vesti og ýmislegt annað. Þá fundu lögregluþjónar vefþjón öryggiskerfis heimilis forsetans.

Vonast er til þess að þar megi finna upplýsingar um árásina.

Le Nouvelliste hefur eftir dómara að mennirnir með bandarísku ríkisborgararéttina hafi sagst verið ráðnir sem túlkar. Þeim hafi verið sagt að handtaka ætti forsetann og gátu ekki sagt hver höfuðpaurinn væri. Bara að þeir hefðu verið ráðnir í gegnum internetið.

Eins og áður segir er ekki vitað hver sendi málaliðana til að myrða forsetans og liggur tilefni árásarinnar ekki fyrir heldur. Moise var ekki vinsæll á Haítí og hafði meðal annars verið sakaður um spillingu, alræðistilburði, að halda illa á efnahagsmálum og margt annað.


Tengdar fréttir

Handtóku banamenn forsetans í sendiráði Taívan

Lögregluyfirvöld á Haíti segjast hafa handtekið sautján málaliða sem tóku þátt í árásinni á forseta landsins á miðvikudag. Forsetinn, Jovenel Moise var skotinn til bana þegar hópur þungvopnaðra manna réðst á heimili hans.

Forseti Haítí skotinn til bana á heimili sínu

Jovenel Moïse, forseti Haítí, er sagður hafa verið myrtur í árás í nótt. Hópur vopnaðra manna er sagður hafa rutt sér leið inn á heimili hans í Port-au-Prince í nótt og skotið forsetann til bana og sært Martine Moise, eiginkonu hans, sem sé nú á sjúkrahúsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×