Innlent

Brunaði á móti umferð í annarlegu ástandi með lögregluna á hælunum

Snorri Másson skrifar
Viðbúnaður lögreglu var nokkuð mikill að sögn viðstaddra.
Viðbúnaður lögreglu var nokkuð mikill að sögn viðstaddra. Aðsend mynd

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti bifreið eftirför á fimmta tímanum í dag frá miðbæ Reykjavíkur, vestur á Granda, aftur inn í miðbæ og að lokum út á Sæbraut, þar sem ökumaðurinn, karlmaður um tvítugt, var handtekinn eftir að dekk sprakk á bifreið hans.

Eftirförin hófst í Borgartúni, þar sem ökumaðurinn virti að vettugi stöðvunarmerki lögreglu. Þaðan var haldið af stað í eftirför sem varði í nokkra stund.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er um að ræða góðkunningja lögreglu, sem var í þokkabót í annarlegu ástandi. Maðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann verður yfirheyrður þegar ástand hans batnar. Þar á eftir verður tekin ákvörðun um framhaldið.

Engum varð meint af vegna þessarar atburðarásar svo vitað sé en ljóst er að mikil hætta skapaðist þar sem ökumaðurinn fór um. Hann hafði meðal annars ekið yfir leyfðum hámarkshraða og gegn einstefnu.

Á myndbandi fréttastofu má sjá svartan Mercedes Benz-jeppa þeytast á öfugum vegarhelmingi austur Geirsgötu í átt að Hörpu og beygja svo áfram til vinstri inn Sæbraut. Skömmu síðar sprakk dekk á bifreið ökumannsins og tókst lögreglu þannig að handtaka hann á miðri Sæbrautinni.

Sjónarvottar hafa sagt Vísi frá að minnsta kosti þremur lögreglubílum, einum sem sást á miklum hraða inni í íbúðarhverfi í Vesturbænum. Fjögur lögregluhjól veittu svörtum jeppanum eftirför eftir Ánanaustum og í átt að Örfirisey.

Hér að neðan má sjá myndbandið í heild sinni, af því hvernig lögreglumenn yfirbuguðu loks ökumanninn á Sæbraut.

Ljóst var að viðbúnaðurinn var mikill en ástæður eftirfararinnar liggja ekki fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu var óskað eftir tveimur sjúkrabílum fyrir stundu en beiðnin var afturkölluð skömmu síðar.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að tilkynning barst frá lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×