Innlent

Íslenskt efnahagskerfi sterkt þrátt fyrir samdrátt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Niðurstöður skýrslu OECD voru kynntar á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu í morgun.
Niðurstöður skýrslu OECD voru kynntar á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu í morgun. Vísir/Sigurjón

Íslenskt efnahagskerfi stendur sterkari fótum en aðrar þjóðir eftir þann mikla samdrátt sem varð í kórónuveirufaraldrinum. Fjármálaráðherra segir viðsnúning fram undan en að breyta þurfi áherslum í ferðaþjónustu og menntakerfinu.

Efnahags- og framfarastofnununin, OECD, kynnti skýrslu sína um íslenskt efnahagslíf á blaðamannafundi í morgun, en stofnunin gefur út slíkar skýrslur á tveggja ára fresti.

„Það sýnir sig að einkaneyslan á Íslandi hefur verið sterk og kaupmáttur heimilanna hefur vaxið þrátt fyrir þennan faraldur. Það sem OECD er að draga fram núna er að þegar áhrifa faraldursins gætir ekki lengur í okkar hagkerfi að þá sé afskaplega mikilvægt að við höldum áfram að fjárfesta í nýsköpun og þróun, að við hugum að þeim þáttum í menntakerfinu okkar sem geta tryggt þekkingu í landinu, sem nýtist atvinnulífinu til lengri tíma,” segir Bjarni Benediktsson.

Nýsköpun sé lykillinn að hagvexti en fyrirhugað er að laga skattastyrkjakerfið betur að minni nýsköpunarfyrirtækjum, því kerfið sem nú sé til staðar virðist frekar gagnast stærri fyrirtækjum. Þá er hvatt til breytinga á ýmsum sviðum.

„Við þurfum til dæmis að vinna í regluverkinu okkar og einfalda það. Við fengum skýrslu um það efni árið 2019 sem sérstaklega horfði til byggingariðnaðarins og ferðaþjónustu og það skiptir máli að við fylgjum því eftir,” segir Bjarni.

Hann segir að fram undan sé viðsnúningur í efnahagskerfinu og bendir á að í skýrslunni komi fram að faraldurinn hafi ekki haft eins mikil áhrif á íslenskt efnahagskerfi og á aðrar þjóðir.

„Það sem helst skýrir það er að við höfðum byggt upp viðnámsþrótt í hagkerfinu en við höfðum lága skuldastöðu ríkissjóðs og gátum þess vegna leyft okkur að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til að fara í mjög kostnaðarsamar aðgerðir.”

Þá leggur stofnunin til breyttar áherslur, til dæmis laust taumhald peningastefnu en að vera tilbúin til að auka aðhald, að auðvelda aðgengi að störfum með því að fækka leyfisskyldum störfum og að styrkja tengsl náms og vinnumarkaðar, svo dæmi séu tekin.

„Við fáum ábendingar um að það séu þættir í menntakerfinu sem við getum yddað til og svo fáum við mikla og góða hvatningu og mjög jákvæða umsögn um það sem við höfum verið að gera í rannsóknum og þróun. En við þurfum kannski að huga að því að teygja okkur vel til minni og meðal stórra fyrirtækja.”Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.