Fótbolti

Ingibjörg skoraði í svekkjandi tapi í toppslagnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir

Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir var á skotskónum er lið hennar Vålerenga tapaði 2-1 fyrir Rosenborg í toppslag í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í Osló í kvöld. Mikil spenna er í toppbaráttunni.

Bæði lið voru með 18 stig, fullt hús stiga, eftir fyrstu sex leiki sína en voru þó stigi á eftir Sandviken sem var á toppnum og hafði leikið einum leik fleira. Ingibjörg var að venju í byrjunarliði Vålerenga og hún kom liðinu yfir þegar 31 mínúta var liðin af leiknum.

1-0 stóð í hléi en Elin Sørum jafnaði fyrir Rosenborg á 64. mínútu og allt virtist stefna í jafntefli. Svo varð hins vegar ekki, Sara Fornes skoraði það sem reyndist sigurmark Rosenborgar í uppbótartíma. Svekkjandi 1-2 tap því niðurstaðan fyrir Ingibjörgu og stöllur hennar í Vålerenga.

Rosenborg er á toppi deildarinnar eftir sigurinn með 21 stig, Sandviken er með 19 stig, Vålerenga 18 stig í þriðja sæti og Lilleström er með 15 stig í því fjórða.

Karlalið Vålerenga var einnig í eldlínunni í kvöld þar sem það mætti Íslendingaliði Strömgodset. Nígeríumaðurinn Fred Friday kom Strömgodset yfir snemma leiks en Henrik Bjørdal jafnaði á 67. mínútu og 1-1 úrslit leiksins.

Ari Leifsson spilaði allan leikinn í vörn Strömgodset en Valdimar Þór Ingimundarson sat allan tímann á varamannabekknum. Viðar Örn Kjartansson er enn frá vegna meiðsla hjá Vålerenga.

Vålerenga er með 19 stig í þriðja sæti eftir ellefu spilaða leiki, fimm stigum frá Bödo/Glimt sem er í öðru sæti og sjö stigum frá toppliði Molde.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×