Fótbolti

Sungu til heiðurs Spinazzola í flug­vélinni og rútunni eftir sigurinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Spinazzola liggur eftir í tárum á meðan læknateymi Ítala bíður eftir börum.
Spinazzola liggur eftir í tárum á meðan læknateymi Ítala bíður eftir börum. EPA-EFE/Stuart Franklin

Leonardo Spinazzola, einn allra öflugasti leikmaður Ítalíu á EM, var borinn af velli í sigri Ítala á Belgíu í átta liða úrslitunum í gær.

Spinazzola meiddist er hann tók sprett undir lokin en spekingar eru hræddir um að þessi 28 ára leikmaður hafi slitið hásin.

Hann var eins og áður segir borinn af velli og það í tárum enda mikið áfall fyrir þennan vinstri fótar leikmann sem hafði átt ansi gott mót hingað til.

Samkvæmt blaðamanninum Gianluca Di Marzio mun Spinazzola yfirgefa herbúðir ítalska liðsins og halda til Rómar með lækni ítalska landsliðsins.

Samherjar hans í ítalska liðinu höfðu þó ekki gleymt honum í fagnaðarlátunum í gær því þeir sungu nafn hans bæði í fluginu og rútunni eftir leikinn.

Ítalir eru komnir í undanúrslitin þar sem þeir mæta Spáni en leikið verður á Wembley á þriðjudag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×