Innlent

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu tregust til að af­henda gögn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Skúli Þór, formaður NEL, segir að verið sé að reyna að leysa vandann í góðu. Ekki náðist í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, við vinnslu fréttarinnar.
Skúli Þór, formaður NEL, segir að verið sé að reyna að leysa vandann í góðu. Ekki náðist í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, við vinnslu fréttarinnar. Vísir

Á­greiningur hefur verið uppi milli Nefndar um eftir­lit með lög­reglu (NEL) og lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu um skyldu lög­reglunnar til að af­henda nefndinni á­kveðin gögn.

Frá því að nefndin tók til starfa fyrir rúmum fjórum árum hefur mikill tími farið í gagna­öflun frá lög­­reglunni á höfuð­­borgar­­svæðinu.

Gögnin sem em­bættið virðist tregt til að af­henda nefndinni eru gögn í saka­málum sem eru til rann­sóknar. Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu telur sig þannig ekki mega af­henda gögn sem tengjast málum í rann­sókn til NEL, sem telur það hins vegar beinlínis skyldu lög­reglunnar.

Stórt embætti og mikið álag

Skúli Þór Gunn­steins­son, for­maður NEL, segir við Vísi að nefndin eigi ekki í vand­ræðum með að fá sam­bæri­leg gögn af­hent frá öðrum em­bættum lög­reglunnar.

„Þetta er náttúru­lega stærsta em­bættið, mesta á­lagið og það er mest að gera hjá þeim. Maður hefur skilning á því og við erum að reyna að leysa þetta í góðu,“ segir Skúli.

Erfitt að fá upptökurnar

Þetta kom upp þegar Vísir spurði Skúla út í álit NEL á störfum lög­reglunnar í Ás­mundar­salar­málinu, því á meðal þess sem þar kom fram var hve langan tíma það tók nefndina að fá upp­tökur úr búk­mynda­vélum lög­reglunnar af­hentar.

Þegar þær svo loks bárust kom í ljós að hluti hljóðsins hafði verið af­máður og segir Skúli að það hafi verið vegna þess að NEL hafi fengið sömu út­gáfu senda og verj­endur þeirra sem eiga hlut að málinu fengu. Þar hafði lög­regla af­máð þann hluta upp­takanna, sem ekki snerti málið beint, eins og sam­tal lög­reglu­manna, sem nefndin mat síðar á­mælis­vert.

Nefndin óskaði þá eftir því að fá frum­upp­tökurnar og fékk þær á endanum en varð á sama tíma að af­henda lög­reglunni aftur upp­tökurnar sem hafði verið átt við.

„Við urðum að skila þeim inn því við áttum ekki að fá upp­tökuna, sem við þó fengum, vegna rann­sóknar­hags­muna,“ segir Skúli.

Tefur nefndina óhóflega

„En málið er að við höfum mjög skýrar heimildir til að fá gögn og við höfum mjög ríka þagnar­skyldu á það sem við sjáum og heyrum,“ heldur hann á­fram og telur það alveg skýrt í lögum að nefndin eigi rétt á öllum gögnum frá lög­reglunni, meira að segja þeim sem sem eru í rann­sókn vegna saka­mála.

„Því að sko – ef að við erum að fara að horfa á það að lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu ætli ekki af­henda okkur ein­hver gögn vegna þess að mál eru til rann­sóknar þá erum við kannski ekki að fá gögn í ein­hverju máli í tvö ár eða eitt­hvað.“

Allsherjarnefnd segir lögin skýr

Vanda­málið virðist ekki nýtt af nálinni. Frum­varp um breytingar á lör­eglu­lögum voru sam­þykktar fyrir þing­lok en í nefndar­á­liti alls­herjar- og mennta­mála­nefndar Al­þingis um frum­varpið var fjallað um þetta at­riði.

Nefndin hafði þá fengið ýmsa aðila að borðinu, til dæmis með­limi NEL, og hefur greini­lega velt því fyrir sér hvort skerpa ætti það á­kvæði í lögum sem kveður á um heimild nefndarinnar til að fá gögn af­hent frá lög­reglunni:

„Fram komu sjónar­mið um að svo virðist sem að em­bættin átti sig ekki á af­hendingar­skyldunni sem á þeim hvílir sam­kvæmt lögunum og þá fari mikill tími í gagna­öflun frá lög­reglu­em­bættunum. Því þyrfti að kveða skýrt á um þá skyldu og undan­tekningar þar á ef ein­hverjar væru,“ segir í á­liti nefndarinnar.

Meiri hluti nefndarinnar taldi þá ekki á­stæðu til að skerpa á þessu at­riði í lögum, það væri mjög skýrt nú þegar:

„Meiri hlutinn bendir á að skv. 6. mgr. 8. gr. frum­varpsins yrði texti 5. mgr. 35. gr. lög­reglu­laga ó­breyttur frá því sem nú er og telur á­kvæðið vera skýrt um af­hendingar­skyldu em­bættanna. Meiri hlutinn á­réttar mikil­vægi þess að nefndin geti sinnt starfs­skyldum sínum og fái þær upp­lýsingar sem hún þarf. Í þessu sam­hengi telur meiri hlutinn mikil­vægt að em­bættin sem í hlut eiga séu með­vituð um hlut­verk nefndarinnar.“

Ráðherra inni í málinu

Skúli segir að NEL eigi í mjög góðu sam­starfi við dóms­mála­ráðu­neytið og að verið sé að reyna að leysa þessi mál svo nefndin geti sinnt starfs­skyldum sínum.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra sagði þá við Vísi fyrr í vikunni að hún hefði áður rætt og þyrfti að ræða betur um þessi mál við lög­regluna.

Ekki náðist í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, við gerð fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×