Innlent

Macron gerði sig líklegan til að grípa Katrínu þegar henni skrikaði fótur

Snorri Másson skrifar
Emmanuel Macron og Katrín Jakobsdóttir áttu fund í París í dag.
Emmanuel Macron og Katrín Jakobsdóttir áttu fund í París í dag. AP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er stödd í Frakklandi, þar sem hún fundaði með Emmanuel Macron Frakklandsforseta í morgun. Það er tímanna tákn að fullbólusettur forsætisráðherra hafi getað faðmað fullbólusettan forseta þegar þau kvöddust við dyraþrepið hjá honum.

Á myndbandi frá AP má sjá að Katrínu skrikaði fótur er hún var á leið út úr höllinni, og Macron brást allur hinn herramannslegasti við. Forsetinn gerði sig líklegan til að grípa hana og rétti henni hjálparhönd sem hún afþakkaði auðmjúklega. Þau föðmuðust í kveðjuskyni og Katrín hélt sína leið.

Klippa: Katrín skrikaði fótur á tröppum Élysée-hallar

Katrín og Macron ræddu annars ýmislegt á fundi sínum; möguleika á nánari samstarfi Íslands og Frakklands í grænum lausnum, loftslagsmálum og jafnréttismálum, sérstaklega hvað varðar jafnlaunamál.

Forsætisráðherra skrifar á Facebook að sérstaklega hafi verið rætt um íslenska fæðingarorlofskerfið og mikilvægi þess fyrir jafnrétti á vinnumarkaði. 

Emmanuel Macron forseti Frakklands tók hlýlega á móti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í París í dag, en treysti sér þó vissulega ekki til þess að fella grímuna.Stjórnarráðið

Farið var yfir heimsfaraldurinn, menningartengsl Íslands og Frakklands, viðskipti landanna og Norðurslóðamál. 

„Fundurinn var góður og klárlega mikil tækifæri í auknu samstarfi þessara ríkja,“ skrifar Katrín, sem er annars stödd í París vegna átaksverkefnis UN Women, Kynslóðar jafnréttis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×