Innlent

Áttu „mjög góðan“ fund með umboðsmanni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gunnar Bjarni Ragnarsson krabbameinslæknir og Erna Bjarnadóttir, forsvarsmaður Aðför að heilsu kvenna.
Gunnar Bjarni Ragnarsson krabbameinslæknir og Erna Bjarnadóttir, forsvarsmaður Aðför að heilsu kvenna.

„Hann hefur verið að fylgjast með málinu, er að gera það og mun gera það,“ segir Erna Bjarnadóttir, forsvarsmaður Facebook-hópsins Aðför að heilsu kvenna, sem fundaði með Umboðsmanni Alþingis nú í morgun.

Með henni á fundinum var Gunnar Bjarni Ragnarsson, formaður Félags krabbameinslækna.

Til umræðu var staða skimana fyrir leghálskrabbameini en skimanirnar fluttust um áramótin frá Krabbameinsfélagi Íslands og til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Óhætt er að segja að síðan hafi málin verið í miklum ólestri en bið eftir niðurstöðum er enn þrír mánuðir.

„Við ræddum málið í heild; allt frá því að ákvörðun var tekin um þessar breytingar á fyrirkomulaginu og til þeirrar stöðu sem núna er uppi,“ segir Erna.

Fundurinn hafi verið mjög góður.

Aðför að heilsu kvenna tilheyra nú um 17 þúsund meðlimir en þar ræða konur hin ýmsu álitamál varðandi skimanirnar. Augljóst er að konur hafa verulegar áhyggjur af stöðu mála.

Fyrir utan langan biðtíma hafa konur meðal annars greint frá því að heilsugæslan hafi neitað að rannsaka sýni og gagnrýnt að konur utan þess hóps sem er skilgreindur í skimunarleiðbeiningum geti ekki óskað eftir frumurannsókn.

Þá hafa konur og heilbrigðisstarfsmenn gagnrýnt harðlega að rannsóknir á leghálssýnum hafi verið færðar úr landi. Landspítalinn hefur nú ítrekað svarað því til að hann geti sinnt rannsóknunum og heilbrigðisráðherra greindi frá því í dag að það væri í skoðun að flytja rannsóknirnar heim.

Samningur Sjúkratrygginga við rannsóknarstofuna á Hvidovre-sjúkrahúsinu er uppsegjanlegur, með þriggja mánaða fyrirvara.


Tengdar fréttir

Heilsugæslan segist ekki „henda“ sýnum

Forsvarsmenn Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segjast ekki „henda“ sýnum sem berast Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilsugæslunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.