Fótbolti

Brynjar Ingi seldur til Ítalíu

Sindri Sverrisson skrifar
Nýjasti markaskorari íslenska landsliðsins, Brynjar Ingi Bjarnason, hefur verið seldur til Ítalíu.
Nýjasti markaskorari íslenska landsliðsins, Brynjar Ingi Bjarnason, hefur verið seldur til Ítalíu. Getty/Boris Streubel

Brynjar Ingi Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið seldur frá KA til ítalska félagsins Lecce. Hann gerir samning til þriggja ára við félagið.

Frá þessu greinir miðillinn Akureyri.net og segir næsta víst að tilkynnt verði um félagaskiptin síðar í dag.

Brynjar Ingi hefur verið eftirsóttur, ekki síst eftir mjög góða frammistöðu með íslenska landsliðinu í vináttulandsleikjum fyrir tæpum mánuði síðan og meðal annars mark gegn Pólverjum.

Í frétt Akureyri.net segir að Lecce hafi verið meðal fyrstu félaga til að sýna miðverðinum unga áhuga en að KA hafi reyndar líka samþykkt tilboð frá öðru félagi.

Lecce varð í 4. sæti ítölsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð og fór í umspil um sæti í A-deildinni en tapaði þar í undanúrslitum gegn Venezia, samtals 2-1.

Brynjar Ingi er 21 árs gamall en hefur slegið í gegn með KA á síðustu tveimur leiktíðum og á nú þegar að baki 39 leiki í efstu deild, og hefur skorað í þeim þrjú mörk. 

Hann lék fyrstu þrjá A-landsleiki sína fyrr í sumar og skoraði fyrsta landsliðsmarkið sitt en á enga leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×