Erlent

Boða til neyðar­fundar til að ræða út­breiðslu Delta-af­brigðisins

Atli Ísleifsson skrifar
Verst er ástandið í Sydney þar sem um 128 manns hafa smitast síðustu daga en afbrigðið hefur einnig látið á sér kræla annars staðar í landinu.
Verst er ástandið í Sydney þar sem um 128 manns hafa smitast síðustu daga en afbrigðið hefur einnig látið á sér kræla annars staðar í landinu. Getty

Yfirvöld í Ástralíu hittast á neyðarfundi í dag til að ræða aukna útbreiðslu kórónuveirusmita í landinu en undanfarið hefur Delta-afbrigðið svokallaða verið að sækja verulega í sig veðrið.

Verst er ástandið í Sydney þar sem um 128 manns hafa smitast síðustu daga en afbrigðið hefur einnig látið á sér kræla annars staðar í landinu.

Útgöngubanni hefur meðal annars verið komið á bæði í Sydney og í Darwin vegna útbreiðslunnar, búið er að herða takmarkanir í fjórum ríkjum landsins og hefur fjöldi verslana og ýmissi starfsemi verið gert að loka.

Þetta er í fyrsta sinn í marga mánuði þar sem kórónuveirusmit greinast í mörgum landshlutum Ástralíu á sama tíma, en Áströlum hefur gengið vel í baráttunni gegn veirunni.

Fjármálaráðherrann Josh Frydenberg segir að „nýjan fasa“ hafinn í faraldrinum í Ástralíu, vegna útbreiðslu Delta-afbrigðisins.

Alls hafa rúmlega 30 þúsund kórónuveirusmit komið upp í Ástralíu frá upphafi faraldursins og þá hafa 910 dauðsföll í landinu verið rakin til Covid-19.

Yfirvöld í Nýju Suður-Wales hafa beint því til íbúa að láta bólusetja sig, og hafa bent á að í þrjátíu manna samkvæmi, sem haldið var í Sydney á dögunum, hafi 24 smitast af veirunni. Þeir einu sem smituðustu ekki voru þeir sem höfðu látið bólusetja sig.

Einungis teljast fimm prósent Ástrala, sextán ára og eldri, nú fullbólusettir og þá teljast um þrjátíu prósent íbúa hálfbólusettir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×