Erlent

Fimmta líkið fundið í rústum blokkarinnar en fjölda fólks enn saknað

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgunarlið að störfum í rústum Champlain-suðurturnsins í dag. Eldur sem kraumar í rústunum torveldar leit og björgun.
Björgunarlið að störfum í rústum Champlain-suðurturnsins í dag. Eldur sem kraumar í rústunum torveldar leit og björgun. AP/Lynne Sladky

Tala látinna þegar hluti tólf hæða blokkar hrundi til grunna á Flórída hækkaði þegar yfirvöld staðfestu að fimmta líkið hefði fundist í rústunum. Enn er fleiri en 150 manns saknað á þriðja degi leitar að eftirlifendum.

Björgunarlið leitar enn í rústunum með aðstoð leitarhunda og hljóðsjár. AP-fréttastofan hefur eftir Daniellu Levine Cava, borgarstjóra Miami-Dade-sýslu, að auk fimmta líksins hefðu fleiri líkamsleifar fundist í dag.

„Aðalforgangsmál okkar er enn leit og björgun og að bjarga eins mörgum lífum og við getum,“ sagði Levine Cava.

Eftir líkfundinn í dag er 156 manns enn saknað. Fólkið er af fjölda ólíkra þjóðerna. Ísraelsstjórn hefur sagst ætla að senda verkfræðinga og rústabjörgunarsérfræðinga til aðstoðar en tuttugu ísraelskir ríkisborgarar eru á meðal þeirra sem er saknað.

Eldur sem kraumar djúpt í rústunum og reykur sem leggur frá honum torveldar leitar- og björgunarstarf í bænum Surfside nærri Miami á Flórída. Blokkarálman hrundi aðfararnótt fimmtudags.

Í ljós hefur komið að verkfræðingar vöruðu við skemmdum á blokkinni fyrir þremur árum. Yfirvöld á Flórída hafa nú tilkynnt að þau ætli að láta fara yfir allar byggingar sem nálgast fjörutíu ára skoðun eins og Champlain-turninn sem hrundi til þess að tryggja öryggi þeirra.


Tengdar fréttir

Einn látinn og hátt í hundrað saknað á Flórída

Að minnsta kosti einn er látinn eftir að hluti tólf hæða íbúðablokkar hrundi í bænum Surfside nærri Miami á Flórída í nótt. Tæplega hundrað manna er enn saknað og er óttast að tala látinna eigi eftir að hækka töluvert.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×