Erlent

Hótar að láta hand­taka þá sem ekki vilja bólu­setningu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rodrigo Duterte er forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte er forseti Filippseyja. AP/Aaron Favila

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur hótað að láta handtaka hvern þann Filippseying sem ekki lætur bólusetja sig við kórónuveirunni. Þá hefur hann gefið í skyn að fólk sem ekki er samvinnuþýtt með aðgerðum stjórnvalda til að halda faraldri veirunnar í skefjum eigi að yfirgefa ríkið.

Þetta kom fram í máli forsetans í ávarpi sem hann flutti í sjónvarpi í gær. Þar sagðist hann vera við það að missa þolinmæðina fyrir fólki sem ekki vill láta bólusetja sig við kórónuveirunni.

„Ekki misskilja mig. Það er neyðarástand í landinu. Ef þú vilt ekki láta bólusetja þig, læt ég handtaka þig og svo sprauta ég bóluefninu í rassinn á þér,“ sagði Duterte.

„Ef þú samþykkir ekki að láta bólusetja þig, farðu þá frá Filippseyjum. Farðu til Indlands eða Bandaríkjanna,“ sagði Duterte og bætti við að hann myndi fara fram á það við sveitarstjóra í landinu að þeir gerðu lista yfir íbúa sem ekki væru samvinnuþýðir.

AP-fréttaveitan hefur eftir mannréttindalögfræðingnum Edre Olalia að hótanir Duterte væru áhyggjuefni og að forsetinn ætti ekki að geta fyrirskipað handtöku neins sem ekki hefur framið glæp.

Yfir 1,3 milljónir hafa greinst með kórónuveiruna í Filippseyjum og hátt í 24 þúsund látist úr Covid-19, svo vitað sé.

Bólusett við kórónuveirunni í Maníla, höfuðborg Filippseyja. AP/Aaron Favila


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.