Fótbolti

Danir enn á lífi og gætu komist áfram á færri gulum spjöldum í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Danir hafa fagnað einu marki á EM til þessa og það mark gæti reynst dýrmætt í kvöld.
Danir hafa fagnað einu marki á EM til þessa og það mark gæti reynst dýrmætt í kvöld. Getty/Stuart Franklin

Danir eru með bakið upp við vegg og þurfa sigur gegn Rússum á Parken í kvöld til að eiga einhverja von um að komast í 16-liða úrslitin á EM. Lokaleikirnir í B-riðli hefjast kl. 19.

Belgía hefur þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum, með því að vinna Rússland og Danmörku. Belgar mæta Finnum á sama tíma og Danir og Rússar mætast. Rússland og Finnland eru með þrjú stig hvort en Danmörk án stiga.

Leikirnir og staðan í B-riðli á EM.

Rússar og Finnar geta tryggt sig áfram með sigri í kvöld, hvort sem liðin enda í 1., 2. eða 3. sæti. Fjögur lið með bestan árangur í 3. sæti, í riðlunum sex, komast áfram í 16-liða úrslit og ljóst er að sex stig duga til þess.

Þó að Danmörk hafi tapað fyrstu tveimur leikjum sínum getur liðið enn náð 2. sæti. Til þess þarf liðið að vinna Rússland og treysta á að Finnland tapi fyrir Belgíu, sem er býsna raunhæft.

Málið flækist reyndar ef að Danmörk vinnur 1-0 sigur og Belgía vinnur. Þá gætu gul spjöld ráðið því hvort Danmörk eða Finnland endar í 2. sæti. Hér eru dæmi um hvað gerist ef Danmörk vinnur 1-0 og Belgía vinnur eins marks sigur gegn Finnlandi:

Ef Danmörk vinnur 1-0 og...

  1. Belgía vinnur 1-0:

    Þá enda Danmörk, Finnland og Rússland öll jöfn, með nákvæmlega jöfn innbyrðis úrslit þeirra þriggja. Danmörk endar þá í 2. sæti vegna 2-1 taps gegn Belgum á meðan Finnland og Rússland töpuðu 1-0 gegn Belgum. Finnland endar í 3. sæti.
  2. Belgía vinnur 2-1:

    Danmörk, Finnland og Rússland öll nákvæmlega jöfn innbyrðis. Danmörk og Finnland væru þá líka með sömu heildarmarkatölu í riðlinum. Fjöldi refsistiga (vegna gulra og rauðra spjalda) myndi þá ráða því hvort endar ofar (Danmörk stendur betur með þrjú gul gegn fjórum hjá Finnlandi). Ef liðin myndu enda með sama fjölda spjalda þá myndi árangur í undankeppninni ráða úrslitum (Danmörk hefur þar betur).
  3. Belgía vinnur 3-2, 4-3, 5-4 o.s.frv.:

    Danmörk, Finnland og Rússland öll nákvæmlega jöfn innbyrðis en Finnar með flest mörk skoruð í riðlinum af þessum þremur, og því fyrir ofan Danmörku sem yrði í 3. sæti.

Ef að Danmörk og Belgía vinna í kvöld, og að minnsta kosti annar leikurinn vinnst með tveggja marka mun, nær Danmörk 2. sæti.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.