Erlent

Löfven til í að leiða ríkisstjórn áfram

Kjartan Kjartansson skrifar
Stefan Löfven er fyrsti forsætisráðherra Svíþjóðar sem vantrausti er lýst á.
Stefan Löfven er fyrsti forsætisráðherra Svíþjóðar sem vantrausti er lýst á. Vísir/EPA

Stefan Löfven og Jafnaðarmannaflokkur hans eru tilbúnir til þess að halda áfram að axla ábyrgð á stjórn Svíþjóð eftir að þingið lýsti vantrausti á hendur honum í morgun. Hann hefur viku til að ákveða næstu skref.

Meirihluti þingmanna á sænska þinginu greiddi atkvæði með því að lýsa vantrausti á Löfven og minnihlutastjórn hans í morgun. Hægriöfgaflokkurinn Svíþjóðardemókratar lögðu vantrauststillöguna fram eftir að Vinstri flokkurinn dró stuðning við ríkisstjórnina til baka.

Löfven hefur nú viku til að ákveða hvort að hann segir af sér, reynir að mynda nýja ríkisstjórn eða boðar til aukakosninga í haust. Ekki hefur verið boðað til aukakosninga í Svíþjóð frá því á 6. áratug síðustu aldar.

Á blaðamannafundi eftir að vantraustið var samþykkt sýndi Löfven ekki á spilin en virtist gefa til kynna að hann gæti freistað þess að klambra saman nýrri stjórn.

„Ríkisstjórnin hefur viku til ákveða hvaða leið við viljum fara. Óháð því er ég og flokkur minn tilbúinn að axla ábyrgð á stjórn landsins,“ sagði Löfven.

Nú taki við viðræður til þess að tryggja að ný ríkisstjórn verði mynduð sem fyrst. Löfven sagði að ef eitthvað yrði fast í hendi tæki það mögulega skemur en viku að koma í ljós.

Fótunum var kippt undan stjórn Löfven þegar Vinstri flokkurinn, sem hefur tekið þátt í að verja minnihlutastjórnina falli, ákvað að draga stuðning sinn til baka í síðustu viku vegna deilna um hvort afnema ætti þak á húsaleigu í nýju húsnæði.

Löfven harmaði í dag að Vinstri flokkurinn hefði hafnað tilraunum til þess að ná sátt í málinu. Lagði hann áherslu á að jafnaðarmenn aðhylltust ekki að leiguverð yrði gefið frjálst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×