Innlent

Þórdís þakklát fyrir traustið og Haraldur hvattur til að þiggja sætið

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún er þakklát fyrir stuðninginn. Hún segist ekki hafa talið sig eiga sigurinn vísan. 
Þórdís Kolbrún er þakklát fyrir stuðninginn. Hún segist ekki hafa talið sig eiga sigurinn vísan.  Vísir/Vilhelm

„Þetta er afgerandi traust og yfirlýsingu frá fólkinu í kjördæminu. Ég er auðvitað afskaplega þakklát fyrir það,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem bar sigur úr býtum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. „Þetta er breiður stuðningur og mikill, sem ég fann alveg fyrir en samt leyfði ég mér að dreyma um svona niðurstöðu en þorði ekki að búast við henni.“

Haraldur Benediktsson þingmaður beið lægri hlut í prófkjörinu, en hann hafði gefið út yfirlýsingu um að hann myndi ekki þiggja sæti á lista ef hann fengi ekki fyrsta sætið. Þórdís segist hafa átt samtal við hann í dag og upplýst hann um að kjördæmið vilji að hann taki annað sætið.

„Við höfum auðvitað unnið saman í mörg ár. Það hefur verið að hluta til óvenjulegt, hann hefur verið oddviti þetta kjörtímabil og ég síðan ráðherra og varaformaður, þannig að þetta hefur ekki allt verið eftir eftir bókinni, en við höfum unnið vel saman og erum fínt teymi. Þetta er einfaldlega ákvörðun sem hann einn getur tekið,“ segir Þórdís.

Aðspurð segist hún ekki hafa upplifað að sér væri stillt upp við vegg með yfirlýsingunni.

„Mér fannst yfirlýsingin í raun ekkert koma mér eða mínu framboði við. Að vissu leyti er þetta ákveðin yfirlýsing sem þýðir eitthvað og það kann að vera að einhverjir kjósendur hafi upplifað það þannig, en ég þori ekki að fullyrða það.“

Þrjár konur leiða nú í þremur kjördæmum; Þórdís í norðvestur, Guðrún Hafsteinsdóttir í Suðurkjördæmi og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í Reykjavík. Kynjahlutföll í kjördæmunum sex eru því jöfn.

„Ég er stolt af því. Við erum með margar sterkar konur ofarlega á lista og í ýmsum ábyrgðarstöðum Þetta verður í fyrsta sinn sem að þrjár konur leiða lista og einhverjir geta sagt að þetta skipti ekki máli en þetta hefur aldrei verið gert og þetta skiptir víst máli.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.