Innlent

Af­létting sótt­varna­reglna á landa­mærum metin í lok mánaðar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að gætt verði ítrustu varúðar þegar staðan verður metin í lok mánaðar.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að gætt verði ítrustu varúðar þegar staðan verður metin í lok mánaðar. vilhelm gunnarsson

Aflétting sóttvarnareglna á landamærunum verður metin í lok mánaðar. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Ferðaþjónustan vonast til að sóttkví við komuna til landsins verði afnumin.

Óbólusettir ferðamenn sem ferðast hingað til lands þurfa að sýna fram á neikvætt PCR próf, fara í tvær sýnatökur og sæta fimm daga sóttkví. Í samtali við mbl.is í morgun sagðist Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar vona að sóttkví við komuna til landsins verði afnumin fljótlega.

Meta stöðuna um mánaðamótin

„Við höfum verið að meta það og höfum frestað því vegna þess að við höfum ekki talið það verjandi að gera það hingað til. Næsta ákvörðun sem við tökum í þessum málum er um mánaðamótin og út frá þróuninni sem við erum að sjá þá er auðvitað lang mesta fjölgunin hjá þeim sem eru að koma hingað sem eru full bólusettir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

„Þannig að sóttkvíin er eingöngu fyrir þau sem eru ekki full bólusett. Við munum meta stöðuna síðar í þessum mánuði af því að næsta ákvörðun, hana þarf að taka um mánaðamótin og þá munum við hér eftir sem hingað til bara gera það út frá ítrustu varkárni.“

Áhyggjur af nýjum afbrigðum

Katrín segir stöðuna góða hér á landi enda Ísland meðal fimm fremstu ríkja heims í bólusetningarmálum. Hún hefur þó áhyggjur af nýjum afbrigðum sem nú greinast erlendis og nefnir Indverska afbrigðið sem dæmi. 

Katrín hvetur fólk til að mæta í bólusetningu svo hjarðónæmi náist en mæting hefur verið dræmari hjá ungu fólki.

„Það eru vísbendingar um að unga fólkið sé tregara til að mæta þegar það er boðað í bólusetningu þannig ég auðvitað hvet áfram alla til að mæta í bólusetningu því það verður ekki hægt að slaka á fyrr en við erum komin þangað að það sé hægt að tala um hjarðónæmi,“ sagði Katrín.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.