Erlent

Erfðabreytt E coli umbreytir plastflöskunum í vanillubragðefni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um það bil milljón plastflaska eru seldar á hverri mínútu en aðeins 14 prósent þeirra rata í endurvinnslu.
Um það bil milljón plastflaska eru seldar á hverri mínútu en aðeins 14 prósent þeirra rata í endurvinnslu.

Vísindamönnum hefur tekist að framleiða vanillubragðefni úr endurunnum plastflöskum með aðstoð erfðabreyttra baktería. 

Hefðbundnar drykkjaflöskur eru flestar úr PET-plasti en PET er skammstöfun á polyethylene terephthalate. Þegar hafði tekist að þróa ensím sem brýtur plastið niður í svokallaða terephthalate-sýru en nú hefur vísindamönnum tekist að breyta sýrunni í vanillín.

Vanillín er notað bæði við matvæla- og snyrtivöruframleiðslu, svo dæmi sé nefnd. Eftirspurn eftir efninu hefur aukist og nam 37 þúsund tonnum árið 2018, langt umfram það magn sem hægt er að vinna árlega úr náttúrulegum vanillubaunum.

Um 85 prósent alls vanillíns á markaðnum er því unnið úr efnum tengdum jarðefnaeldsneytum.

Vísindamennirnir segja uppgötvunina ögra ímynd plasts sem vandræðaúrgangs, þar sem hægt sé að endurnýta það til að búa til verðmæta vöru.

Bakterían sem um ræðir er hin alræmda E coli en með því að útbúa brugg úr plastinu og bakteríunni og láta malla við 37 gráðu hita í sólahring tókst að breyta 79 prósentum af terephthalate-sýrunni í vanillín.

Vísindamennirnir telja að hægt sé að „brugga“ önnur verðmæt mólekúl úr sýrunni.

Umfjöllun Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×