Fótbolti

Heiðruðu minningu Mara­dona með mikilli ljósa­sýningu í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona fagnar með HM bikarinn eftir sigur Argentínu á HM í Mexíkó 1986.
Diego Maradona fagnar með HM bikarinn eftir sigur Argentínu á HM í Mexíkó 1986. Getty/Peter Robinson

Suðurameríkukeppnin í fótbolta, Copa America, er farin af stað og í nótt spilaði Argentína sinn fyrsta leik í keppninni.

Þetta er fyrsta Copa America síðan að Diego Armando Maradona lést og fyrir leikinn var þessi argentínska knattspyrnugoðsögn heiðruð með eftirminnilegum hætti.

Tölvutæknin vat nýtt til hins ítrasta þegar myndum frá ferli Maradona var varpað á leikvanginn og úr varð rosaleg ljósasýning.

Maradona lést í nóvember síðastliðnum en hann er einn af allra bestu knattspyrnumönnum sögunnar. Hápunkturinn var þegar hann nánast upp á sitt einsdæmi færði Argentínu heimsmeistaratitilinn á HM í Mexíkó 1986 þegar kappinn var með fimm mörk og fimm stoðsendingar í sjö leikjum.

Maradona náði aldrei að vinna Suðurameríkukeppnina en hann var ekki með argentínska landsliðið þegar liðið vann Copa America 1991 og 1993. Þá var annar Diego í tíunni eða sjálfur Diego Simeone, núverandi knattspyrnustjóri Atlético Madrid.

Messi skoraði glæsimark úr aukaspyrnu í leiknum á móti Síle sem endaði með 1-1 jafntefli. Messi er búinn að skora meira en tvöfalt fleiri mörk en Maradona fyrir argentínska landsliðið en á enn eftir að vinna titil með þjóð sinni.

Meðal þess sem var varpað á völlinn var glæsilegasta mark Maradona á ferlinum sem hann skoraði eftir mikinn einleik á móti Englendingum á HM 1986 en þar sást hann líka halda boltanum á lofti í búningum liðanna sem hann lék með.

Það þurfti alvöru sýningu til að heiðra jafnlitríkan mann og Maradona var. Það var ekki mikið hægt að kvarta yfir ljóssýningunni sem boðið var upp á en það má sjá þessa glæsilegu ljósasýningu hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.