Fótbolti

Sjáðu stórkostlegt mark Schicks frá miðju

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrik Schick lætur vaða rétt fyrir innan miðju. Skömmu síðar lá boltinn í skoska markinu.
Patrik Schick lætur vaða rétt fyrir innan miðju. Skömmu síðar lá boltinn í skoska markinu. getty/Craig Williamson

Tékkneski framherjinn Patrik Schick skoraði mark Evrópumótsins til þessa í leiknum gegn Skotum á Hampden Park.

Á 52. mínútu barst boltinn til Schicks rétt inni á vallarhelmingi Skota. Hann var fljótur að hugsa, sá að David Marshall var of framarlega og skoraði með stórkostlegu vinstri fótar skoti. 

Boltinn fór beinustu leið í netið án þess að skoppa. Þetta magnaða mark má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Stórkostlegt mark Patricks Schick

Þetta var annað mark Schicks í leiknum en hann kom Tékkum yfir þremur mínútum fyrir hálfleik með skalla eftir fyrirgjöf Vladimírs Coufal frá hægri.

Klippa: Fyrra mark Schicks

Skömmu áður en Schick skoraði sitt annað mark voru Skotar í tvígang hársbreidd frá því að skora. Fyrst átti Jack Hendry skot í slána og svo varði Tomás Vaclík frábærlega eftir að boltinn fór af samherja hans, Tomás Kalas.

Leikurinn er í D-riðli. England vann Króatíu, 1-0, í fyrsta leik riðilsins í gær.

Fylgjast má með leik Skotlands og Tékklands á Stöð 2 Sport EM og í beinni textalýsingu á Vísi.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×