Raheem Sterling skoraði eina markið þegar England vann 1-0 sigur á Króatíu en markið kom eftir frábæran undirbúning frá Leeds leikmanninum Kalvin Phillips. Phillips var frábær á miðju Englendinga í leiknum. Þetta var í fyrsta sinn í sögu Englendinga á EM þar sem liðið vinnur fyrsta leikinn sinn á mótinu en hann kom í tíundu tilraun.
Varamennirnir Michael Gregoritsch og Marko Arnautovic tryggði Austurríkismönnum 3-1 sigur á Norður Makedóníu með mörkum á lokakafla leiksins. Gregoritsch skoraði eftir fyrirgjöf fyrirliðans David Alaba en Arnautovic eftir vandræðalegan varnarleik nýliðanna á EM.
Hinn 37 ára gamli Goran Pandev hafði jafnað metin fyrir Norður Makedóníu á 28. mínútu í sínum 120. landsleik eftir að Stefan Lainer skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Austurríki eftir magnaða fyrirgjöf Marcel Sabitzer. Þetta var fyrst sigur Austurríkismanna í sögu EM.
Denzel Dumfries tryggði Hollendingum 3-2 sigur á Úkraínu eftir að hollenska liðið hafði misst niður 2-0 forystu. Öll fimm mörk leiksins komu í seinni hálfleik. Georginio Wijnaldum og Wout Weghorst komu Hollandi í 2-0 með mörkum með sex mínútna millibli en Andriy Yarmolenko kom þá Úkraínu á blað með frábæru skoti áður en Roman Yaremchuk jafnaði metin aðeins fjórum mínútum síðar.
Sigurmark Denzel Dumfries kom á 85. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá varamanninum Nathan Ake. Hollendingar unnu þar með sinn fyrsta leik á stórmóti í sjö ár en þeir misstu bæði af EM 2016 og HM 2018.
Hér í myndbandinu fyrir ofan má sjá markasyrpu frá leikjunum þremur á EM í gær.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.