Innlent

Stór mál ekki kláruð á þessu kjörtímabili

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna er ánægð með að tekist hafi samkomulag um þinglok. 
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna er ánægð með að tekist hafi samkomulag um þinglok.  Vísir/Einar

Stefnt er að því að Alþingi ljúki störfum í dag en þing þarf ekki að koma aftur saman fyrr en eftir kosningar. Eitt stærsta mál Vinstri-grænna hálendisþjóðgarðurinn verður ekki afgreitt á þessu kjörtímabili og það sama á við um stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Þingheimur komst að samkomulagi í gær um að Alþingi ljúki störfum í dag. Þingfundur hófst klukkan tíu og má búast við að hann standi fram eftir kvöldi. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs, segir ánægjulegt að tekist hafi að semja um þinglok. Stór mál náðu þó ekki í gegn líkt og hálendisþjóðgarðurinn svo og stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Það er alltaf gott að ná samkomulagi fyrir það fyrsta og þingið er auðvitað komið á lokadag og fram yfir starfsáætlun en við erum ósköp sátt við þetta. Við erum að hérna koma máli í farveg eins og hálendisþjóðagarðinum. Það er auðvitað vonbrigði að afgreiða ekki öll málin sem að við leggjum fram en það nú bara eins og það er. Þarna eru gríðarlega margar umfangsmiklar umsagnir undir eins og í því máli og sama má segja um afglæpavæðinguna og þetta þarf tíma til að fara í gengum þetta og hann í rauninni var búinn. Svo er þetta bara eins og gengur og gerist sumt þarf bara að fá að þroskast betur og ég held að það sá raunin með þessi mál en ég hef fulla trú á því að þau klárist þó ekki gerist það á þessu þingi,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Frá störfum Alþingis.Vísir/Vilhelm

Bjarkey segist ánægð með afrakstur flokksins á kjörtímabilinu. „Loftlagsmálin hafa fengið mikla umfjöllun og mikla fjármuni og heilbrigðismálin hafa fengið sama gríðarlega fjármuni, jafnréttismálin hjá forsætisráðherra og fleiri og fleiri mál, landeignarmál og svona. Þannig að við erum bara nokkuð ánægð með okkur þegar við horfum yfir kjörtímabilið með afraksturinn.“

Bjarkey segir að þing komi væntanlega ekki saman aftur fyrr en eftir kosningar. „Það verður borin fram þingfrestun og var mælt fyrir henni hér í gær, forsætisráðherra gerði það, sem að þýðir það þá að við þurfum ekki að koma saman í ágúst aftur til þess að rjúfa þing.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×