Innlent

Aug­lýsa lang­mest allra flokka á Face­book

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Flokkarnir tveir hafa þrátt fyrir miklar auglýsingar ekki komið sérlega vel út úr skoðanakönnunum.
Flokkarnir tveir hafa þrátt fyrir miklar auglýsingar ekki komið sérlega vel út úr skoðanakönnunum. vísir/vilhelm

Flokkur fólksins er sá ís­lenski stjórn­mála­flokkur sem hefur eytt lang­mestu í aug­lýsingar hjá sam­fé­lags­miðlinum Face­book síðustu níu­tíu daga. Sam­tals hafa stjórn­mála­flokkarnir allir eytt um fimm milljónum króna í aug­lýsingar hjá Face­book á tíma­bilinu.

Formaður Blaðamannafélagsins hefur skorað á stjórnmálaflokka landsins að íhuga vel stöðu íslenskra fjölmiðla þegar kemur að því að ákveða hvert auglýsingafé þeirra fer.

Eyða miklu meira en aðrir flokkar

Hægt er að skoða aug­lýsinga­kaup flokkanna í skýrslu aug­lýsinga­safns Face­book. Píratar hafa einnig þá tekið þessar tölur saman og birt á heima­síðu sinni. Þeir eru sá flokkur sem hefur eytt minnstum pening í aug­lýsinga­kaup á tíma­bilinu.

Flokkur fólksins hefur á síðustu níu­tíu dögum eytt 1,4 milljónum króna á Face­book. Það er nánast tvö­falt meira en Sam­fylkingin, sem hefur eytt næst­mestu, alls rúm­lega 820 þúsundum.

Samtals keyptu Samfylking og Flokkur fólksins því auglýsingar fyrir rúmar 2,2 milljónir króna.

Flokkarnir tveir skera sig nokkuð úr hópi hinna flokkanna þegar kemur að aug­lýsinga­kaupum á Face­book. Vísir greindi frá sam­bæri­legum gögnum frá 15. septem­ber til 13. desember í fyrra og höfðu þá Sam­fylking og Flokkur fólksins eytt miklu meira en aðrir flokkar í aug­lýsingarnar.

Þetta virðist enn vera staðan en bilið á milli Sam­fylkingarinnar, sem hefur eytt næst­mestu síðustu níu­tíu daga, og Sjálf­stæðis­flokksins, sem er í þriðja sæti, er tölu­vert. Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur varið tæpum 410 þúsundum króna í aug­lýsingar á Face­book, meira en helmingi minna en Samfylkingin.

Auglýsingar hafa ekki skilað sér í fylgi

Á­hersla flokkanna tveggja á að aug­lýsa sig á Face­book virðist ekki skila sér sér­stak­lega vel í fylgi ef marka má skoðana­kannanir síðustu mánaða.

Sam­kvæmt nýjustu könnun MMR, sem var birt fyrir rúmri viku, mælist Flokkur fólksins með 2,8 prósent og næði ekki manni inn á þing. Fylgi Sam­fylkingarinnar mældist þá 10,9 prósent miðað við 12,1 prósent í síðustu könnun þar á undan. Flokkurinn fékk 12,1 prósent at­kvæða í síðustu þing­kosningum.

Sam­fylkingin mældist á ýmsum tíma­punktum kjör­tíma­bilsins sem næst­stærsti stjórn­mála­flokkur landsins. Flokkurinn var til að mynda með 17,2 prósent fylgi í könnun Zenter fyrir Frétta­blaðið í mars í fyrra.

Sjá einnig: Samfylkingin orðin næststærst.

Hér má sjá töflu yfir eyðslu flokkanna á Face­book síðustu níu­tíu daga:

Píratar vilja að gögnin séu aðgengileg

Flokkur Pírata tók tölurnar saman á heimasíðu sinni og er þar hægt að fylgjast með öllum breytingum sem verða á listanum. Framtakið er á vegum flokksins sjálfs en ekki þing­flokksins.

 „Þetta er í anda flokksins um gagn­sæi gagn­vart okkar gras­rót og kjós­endum al­mennt að setja þetta svona snyrti­lega saman á einn stað,“ segir Róbert Ingi Dou­glas, upp­lýsinga­stjóri Pírata við Vísi.

Hann segir að tölurnar eigi örugg­lega eftir að breytast tals­vert á næstu mánuðum í að­draganda kosninga. Jafn­vel hafi ein­hverjir flokkar hafið kosninga­bar­áttu sína og gæti það skýrt meiri eyðslu þeirra á Face­book.

Tala fallega um fjölmiðla á tyllidögum

For­maður Blaða­manna­fé­lagsins, Sig­ríður Dögg Auðuns­dóttir, skoraði ný­lega á stjórn­mála­flokka landsins að í­huga stöðu fjöl­miðla þegar þeir tækju á­kvörðun um hvar þeir aug­lýstu sig í að­draganda næstu kosninga. Allt of al­gengt væri orðið að það fjár­magn sem flokkarnir verja í aug­lýsinga­kaup streymi til er­lendra tækni­risa og veiki stöðu ís­lenskra fjöl­miðla.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.vísir/vilhelm

Hún sagði við Vísi fyrr í mánuðinum að stjórn­mála­menn væru sí­fellt að tala um fjöl­miðla sem grund­völl lýð­ræðisins þegar þeim hentaði sú orð­ræða. „Á tylli­dögum er gripið til þessa orða­lags en þegar kemur að því að taka á­kvarðanir um hvar á að aug­lýsa þá allt í einu skiptir það ekki máli.“


Tengdar fréttir

Ræðst fram­tíð Sjálf­stæðis­flokksins á Insta­gram?

Hörð bar­átta tveggja ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins um að verða leið­togar flokksins á þingi fyrir Reyk­víkinga hefur ó­lík­lega farið fram hjá mörgum. Báðir hafa aug­lýst sig ágætlega í að­draganda próf­kjörs flokksins, sem fer fram á föstu­dag og laugar­dag, raunar svo mikið að dósent í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands finnst aug­lýsinga­flóðinu svipa til þess sem tíðkaðist rétt fyrir hrun.

Sjálf­stæðis­flokkur, Píratar og Fram­sókn með mest fylgi

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 24,6 prósent í nýrri könnun MMR. Það er rúmlega tveimur prósentustigum hærra en í síðustu fylgismælingu félagsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi en þar á eftir koma Píratar og Framsóknarflokkurinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×