Fótbolti

Geta ekki leigt allt hótelið og banna sjálfsmyndir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kasper Hjulmand, þjálfari Dana, er stressaður fyrir kórónuveirunni.
Kasper Hjulmand, þjálfari Dana, er stressaður fyrir kórónuveirunni. vísir/getty

Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins, segir að það gildi strangar reglur á Marienlyst strandhótelinu sem danska liðið dvelur á er EM fer fram í sumar.

Danir leika sinn fyrsta leik á EM á laugardaginn er Finnland mætir á Parken en Danir spila alla leikina í riðlinum á heimavelli.

Það fylgja strangar reglur á hótelinu, vegna kórónuveirunnar, en smit hafa komið upp í spænska og sænska landsliðinu nokkrum dögum fyrir EM.

„Smitin í spænska hópnum er áminning á það að þessu er ekki lokið og hversu viðkvæmir hlutirnir eru. Við erum búnir að segja leikmönnunum að við verðum í búbblunni og það er það rétta,“ sagði Hjulmand.

„Við erum með fjögur herbergi á hótelinu og svo eru ferðasvæði. Það eru verðir á hótelinu sem hjálpa okkur að komast á milli og þegar við förum fram hjá einhverjum höldum við tveggja metra fjarlægð.“

„Við megum ekki stoppa og gestirnir fá að vita það þegar þeir stimpla sig inn að það eru engar sjálfsmyndir eða eiginhandaráritanir. Við erum mikið úti og höldum okkur á þeim stöðum sem eru bara okkar.“

Nokkur landslið hafa látið loka heilum hótelum en Hjulmand segir að það sé ekki hægt hjá Dönunum.

„Ég held hvorki að við getum það né eigum við peninga til þess að gera þetta. Þetta er ekki umræðuefni. Við eigum ekki svo mikla peninga að við getum lokað risa hóteli og sett múr í kringum það,“ sagði Hjulmand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×