Innlent

Beðið með að fjarlægja byggingakrana af tillitsemi við hrafnsunga

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Þetta eru ungarnir sem urðu þess valdandi að beðið var með að færa kranann.
Þetta eru ungarnir sem urðu þess valdandi að beðið var með að færa kranann. Axel Björnsson

Hrafnapar hefur hreiðrað um sig í byggingakrana við Naustavör í Kópavogi. Beðið hefur verið með að fjarlægja kranann af tillitsemi við hrafnana.

Það var í byrjun apríl sem hrafnarnir byrjuðu að safna í laupinn. Byggingamenn á svæðinu létu það ekki trufla sig og héldu áfram að nota byggingakranann. Það var svo fyrir mánuði síðan sem fimm ungar gerðu vart við sig.

Axel Björnsson, verkstjóri á svæðinu, hefur fylgst náið með vexti unganna. Hann segir þá að mestu leyti vera til friðs en að foreldrarnir geti þó verið argir. „Já þeir eru svolítið argir þegar við erum að ónáða þá hérna uppi við hreiðrið. Þá láta þeir alveg vita af sér.“

Hafa þeir ekkert verið að trufla ykkur?

„Nei, þeir eru bara voðalega góðir. “

Íbúar á svæðinu fylgjast vel með þessum nýju nágrönnum. Hrafnarnir hafa þó fengið mishlýjar móttökur, en einhverjir íbúar hafa kvartað yfir því að krummarnir hægi sér á svölunum hjá þeim.

Byggingakraninn hefur verið látinn standa lengur en ætlað var, af tillitsemi við hrafnana. Þess er nú beðið að ungarnir fljúgi úr hreiðrinu. „Já, það átti að vera búið að fella hann fyrir tveimur mánuðum var talað um,“ segir Axel

„Við erum að vona að ungarnir fari nú að yfirgefa hreiðrið. Þeir eru svona farnir að reyna veifa vængjunum og við vonum að þeir verði ekki mjög lengi í viðbót.“

Hrafnar virðast hafa sérstakt dálæti á svæðinu, en þetta er í annað skipti sem þeir verpa á þessu byggingasvæði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×