Innlent

Anton Kristinn ákærður fyrir vopna- og fíkniefnalagabrot

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla hefur elst við Anton Kristinn í langan tíma. Hann sætir nú ákæru fyrir brot á vopnalögum og fíkniefnalögum.
Lögregla hefur elst við Anton Kristinn í langan tíma. Hann sætir nú ákæru fyrir brot á vopnalögum og fíkniefnalögum. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært Anton Kristinn Þórarinsson fyrir brot á vopnalögum og fíkniefnalögum sem rekja má til húsleitar lögreglu á heimili hans í Akrahverfinu í Garðabæ í mars 2019. Þrjú rafmagnsvopn, rafstuðbyssur, fundust á heimili Antons Kristins auk kókaíns og lítilræði af tóbaksblönduðu kannabisefni. 

Anton Kristinn var á meðal sakborninga í Rauðagerðismálinu þar sem albanskur karlmaður var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í febrúar. Það er hann hins vegar ekki lengur að sögn Steinbergs Finnbogasonar, lögmanns Antons Kristins. Niðurfellingarbréf hafi borist frá lögreglu til staðfestingar því að Anton Kristinn sé ekki lengur sakborningur.

„Ég er að undirbúa bótamál gegn ríkinu vegna framgangs lögreglu,“ segir Steinbergur. Hann segir lögreglu hafa lengi haft upplýsingar um að Anton Kristinn tengdist morðinu ekkert. Það hafi legið fyrir þegar blásið var til fréttamannafundar vegna málsins.

Angjelin Sterkaj hefur játað að hafa ráðið Armando Beqirai bana þann 13. febrúar og raunar lagt áherslu á að hann hafi verið einn að verki. Þrír aðrir eru ákærðir en þeir neituðu aðild að málinu við þingfestingu þess á dögunum. Þeirra á meðal karlmaður sem ók Angjelin í Rauðagerði og með hann á brott í kjölfarið. 

Aðalmeðferð í málinu fer fram í haust.

Endurtekið fengið bætur frá íslenska ríkinu

Lögregla hefur um árabil reynt að hafa hendur í hári Antons Kristins sem lýst hefur verið sem „langstærsta fíkniefnabaróninum“ á Íslandi. Hann hefur þó aðeins einu sinni fengið fangelsisdóm í þyngri kantinum og oftar en einu sinni sótt bætur til íslenska ríkisins eftir að hafa sætt gæsluvarðhaldi eða hlerunum í málum sem leiddu ekki til dóma.

Af gögnum í máli lögreglufulltrúa sem lekið var á Internetið í upphafi árs kom fram að Anton Kristinn var um tíma uppljóstrari hjá lögreglunni. Í rannsókninni var rætt við fjölmarga rannsóknarlögreglumenn og settu sumir stórt spurningamerki við hvers vegna rannsóknir á málum tengdum Antoni Kristni virtust endurtekið renna út í sandinn. Efuðust þeir um heilindi lögreglufulltrúans.

Rannsakendur héraðssaksóknara á máli lögreglufulltrúans töldu þó ekkert koma fram í gögnum málsins sem renndi stoðum undir ásakanir sem til rannsóknar voru. Var málið fellt niður og fékk lögreglufulltrúinn miskabætur frá ríkinu.

Kókaín og rafstuðbyssur

Það var mánudaginn 11. mars árið 2019 sem lögregla mætti á heimili Antons Kristins í Frjóakri í Garðabæ. Allir fimm voru á heimili Antons Kristins að því er segir í ákærunni. Anton og annar karlmaður eru ákærðir fyrir vopnalagabrot en lögregla fann og lagði hald á þrjár rafstuðbyssur á heimilinu.

Þá er Anton ákærður ásamt tveimur öðrum fyrir að hafa 0,73 grömm af kókaíni sem þeir voru að neyta þegar lögregla mætti í húsleitina, að því er segir í ákæru. Þá eru Anton og 44 ára karlmaður ákærðir fyrir að hafa haft í vörslum sínum 34 grömm af kókaíni og rúmt gramm af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Steinbergur segir að 44 ára karlmaðurinn hafi þegar játað að hafa átt grömmin 34 af kókaíni. Stærstan hluta málsins hafi aðrir játað. Anton Kristinn neiti sök í því litla sem eftir standi.

Húsið í Hauganesi á Arnarnesinu sem Anton Kristinn er með í byggingu.Vísir/Vilhelm

Anton Kristinn er fluttur úr Frjóakri en hann seldi húsið, sem er 700 fermetrar, fyrir 360 milljónir króna. Hann fer þó ekki langt en hann er með einbýlishús á Arnarnesinu í byggingu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.