Fótbolti

Betra fyrir Englendinga að vinna ekki riðilinn sinn eins og á HM 2018

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Englendingar hefja leik á EM gegn Króötum á sunnudaginn.
Englendingar hefja leik á EM gegn Króötum á sunnudaginn. getty/Laurence Griffiths

Það versta sem gæti gerst fyrir Englendinga á EM væri að vinna riðilinn sinn. Þá mæta þeir liði úr dauðariðli mótsins.

England er í D-riðli EM ásamt Króatíu, Skotlandi og Tékklandi. Sigurvegari riðilsins mætir liðinu sem endar í 2. sæti F-riðils.

Það er dauðariðill mótsins en þar eru sigurvegarar síðustu þriggja stórmóta, Frakkland, Portúgal og Þýskaland, og svo Ungverjaland sem flestir búast við að reki lestina í riðlinum.

Liðið sem endar í 2. sæti D-riðils mætir hins vegar liðinu sem endar í 2. sæti E-riðils. Í þeim riðli eru Spánn, Svíþjóð, Pólland og Slóvakía. Líklegast er að 2. sætið falli annað hvort Svíum eða Pólverjum í skaut.

Á HM 2018 naut England góðs af því að vinna ekki sinn riðil. England endaði í 2. sæti síns riðils á eftir Belgíu og fyrir vikið var leið þeirra ensku í undanúrslitin greiðari en ella. Í sextán liða úrslitunum mætti England Kólumbíu og Svíþjóð í átta liða úrslitunum. 

Á meðan mætti Belgía Japan í sextán liða úrslitunum og Brasilíu í átta liða úrslitunum. Í undanúrslitunum mætti England Króatíu á meðan Belgía lék gegn Frakklandi. Bæði lið töpuðu þar.

Ef Englendingar vinna riðilinn sinn á EM fá þeir reyndar leik á Wembley í sextán liða úrslitunum. En ef þeir lenda í 2. sæti mæta þeir liðinu úr 2. sæti E-riðils í Kaupmannahöfn svo ferðalagið yrði ekki langt.

Fyrsti leikur Englands á EM er gegn Króatíu á sunnudaginn. Leikurinn fer fram á Wembley eins og allir þrír leikir Englendinga í riðlakeppninni.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×