Fótbolti

For­seti PSG segir að Mbappé fari ekki fet

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verður Mbappé áfram í París?
Verður Mbappé áfram í París? EPA-EFE/Ian Langsdon

Nasser Al Khelaifi, forseti París Saint-Germain, segir að franska ungstirnið Kylian Mbappé fari ekki fet þar sem félagið ætli ekki að selja hann né að leyfa honum að fara frítt.

Al Khelaifi var í viðtali við franska blaðið L‘Équipe þar sem hann sagði að það kæmi ekki til greina að selja franska sóknarmanninn.

„Ég ætla að tala beint út. Kylian Mbappé verður áfram hér hjá París Saint-Germain, við munum aldrei selja hann og hann mun aldrei fara frá félaginu á frjálsri sölu. Það er ómögulegt,“ sagði forsetinn.

Mbappé rennur út á samning næsta sumar en miðað við ummæli forsetans virðist sem sóknarmaðurinn ætli að skrifa undir nýjan samning við félagið. Stórstjarnan Neymar skrifaði undir nýjan samning á dögunum ásamt Julian Draxler og Keylor Navas.

Þá virðist sem hollenski miðjumaðurinn Gini Wijnaldum sé á leiðinni til Parísar sem og ítalski markvörðurinn Gianluigi Donnarumma. Ef marka má þessar fregnir er ljóst að félagið ætlar sér ekki að missa af franska meistaratitlinum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×