Innlent

Skaga­byggð hafnar sam­einingar­til­lögu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Austur-Húnavatnssýsla verður ekki sveitarfélag í bráð.
Austur-Húnavatnssýsla verður ekki sveitarfélag í bráð. map.is

Ekkert verður úr sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu eftir að íbúar Skagabyggðar felldu sameiningartillögu í íbúakosningu í dag. Þar mátti ekki muna mörgum atkvæðum en 29 kusu gegn tillögunni en 24 með henni.

Alls greiddu 53 íbúar Skagabyggðar atkvæði í kosningunni en aðeins 70 voru á kjörskrá í þessu fámenna sveitarfélagi. Tillagan sneri að sameiningu sveitarfélagsins við Blönduósbæ, Húnavatnshrepp og Sveitarfélagið Skagaströnd.

Kosning fór fram í öllum sveitarfélögunum í dag en niðurstöður kosninga hinna sveitarfélaganna eru enn ekki ljósar. Þó er ljóst að ekkert verður af sameiningunni, í bili að minnsta kosti, því sveitarstjórnirnar fjórar hafa allar lýst því yfir að komi til þess að tillögunni verði hafnað af íbúum í hluta sveitarfélaganna muni hinar sveitarstjórnirnar ekki taka ákvörðun um að sameinast án þess að farið verði í nýjar sameiningarviðræður og kosið um þær að nýju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×