Innlent

Disney+ byrjuð að setja inn myndir á íslensku

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Disney+ hefur nú gert að minnsta kosti tíu kvikmyndir aðgengilegar með íslensku tali.
Disney+ hefur nú gert að minnsta kosti tíu kvikmyndir aðgengilegar með íslensku tali. Samsett

Streymisveitan Disney+ hefur orðið við beiðni Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra um að bjóða upp á efni með íslenskri talsetningu. Nú eru myndir á borð við Aladdin, Ísöld og Herkúles í boði með íslensku tali.

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson gagnrýndi það á Twitter í byrjun árs að streymisveitan Disney+ byði ekki upp á íslenskt tal á efni sínu, þar sem íslenska talsetningin væri svo sannarlega til. 

Þá benti hann á mikilvægi þess að varðveita íslenska tungu. Fjöldi fólks tók undir innlegg Jóhannesar.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra brást við umræðunni með því að senda bréf til Bob Chapek, forstjóra Disney, þar sem hún skoraði á Disney+ að gera efnið aðgengilegt á íslensku. 

Menntamálaráðherra barst svar frá Disney samsteypunni í byrjun febrúar. Þar tjáði Hans van Rijn, umsjónarmaður Disney+ á Norðurlöndunum, Lilju að málið væri í vinnslu. Vinsælar myndir á borð við Lion King, Toy Story, Frozen, Wall-E, Cars og Coco yrðu aðgengilegar á íslensku. 

Hann taldi að vinnan tæki nokkra mánuði.

Að minnsta kosti tíu myndir aðgengilegar á íslensku

Margir glöddust yfir því í dag að sjá að minnsta kosti tíu myndir eru nú aðgengilegar með íslensku tali. Það eru myndirnar Aladdin, Ísöld, Herkúles, Moana, Incredibles, Zootropolis, Bílar, Ríó 2 og Epic, ásamt myndinni Soul sem lengi vel var eina myndin á veitunni sem var aðgengileg á íslensku. 

Athygli vekur að þetta eru þó ekki þær myndir sem van Rijn taldi upp í svari sínu og því má ætla að fleiri myndir séu væntanlegar með íslensku tali á næstunni.

Fréttastofa hefur sent Disney+ fyrirspurn vegna málsins.


Tengdar fréttir

Svar við bréfi Lilju gefur vonir um meiri ís­lensku hjá Dis­n­ey

Fleiri myndir verða aðgengilegar með íslenskri talsetningu og texta á streymisveitunni Disney+ eftir nokkra mánuði. Þetta kemur fram í svari Hans van Rijn, yfirmanns Disney á Norðurlöndunum, við erindi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Lilja vonsvikin með Disney

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur sent Bob Chapek, forstjóra Disney, bréf þar sem hún hvetur fyrirtækið til þess að bjóða í meira mæli upp á íslenska talsetningu og texta á streymisveitu sinni, Disney+. Hún kveðst hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar hún komst að því hve lítið af slíku efni er í boði hjá fyrirtækinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.