Innlent

Svar við bréfi Lilju gefur vonir um meiri ís­lensku hjá Dis­n­ey

Sylvía Hall skrifar
Lilja segist ætla þrýsta á að verkinu verði flýtt.
Lilja segist ætla þrýsta á að verkinu verði flýtt.

Fleiri myndir verða aðgengilegar með íslenskri talsetningu og texta á streymisveitunni Disney+ eftir nokkra mánuði. Þetta kemur fram í svari Hans van Rijn, yfirmanns Disney á Norðurlöndunum, við erindi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Lilja sendi nýverið bréf til Bob Chapek, forstjóra Disney, þar sem hún hvatti fyrirtækið til þess að bjóða upp á íslenska talsetningu og texta á streymisveitu sinni Disney+. Sagði hún það vera óboðlegt að stórveldi eins og Disney nýtti ekki íslenskar talsetningar og þýðingar, það væri bæði mikilvægt fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar og komandi kynslóðir.

„Svarið frá Disney er vísbending um góðan vilja. Vinna er hafin við að koma íslenskum skjátextum og talsetningum í notkun á streymisveitunni Disney+, en betur má ef duga skal,“ skrifar Lilja.

„Það stefnir í að efnið verði í boði með vorinu, en ég mun þrýsta á um að verkinu verði flýtt.“

Stórmyndir á leiðinni 

Disney+ varð aðgengileg hér á landi í september síðastliðnum og segir van Rijn fyrirtækið sífellt leita leiða til að laga sig að menningu hvers markaðar. „Það er því ánægjulegt að segja frá því að vinna er nú þegar hafin við að gera þetta að veruleika.“

Meðal fyrstu mynda sem verða aðgengilegar með íslenskri talsetningu eru Lion King, WALL-E og Toy Story myndirnar að sögn van Rijn. Þá eru Cars myndirnar, Frozen 2 og Coco einnig í undirbúningi.

„Tæknileg vinna mun taka nokkra mánuði. Ég hlakka til að hafa samband aftur þegar ég get staðfest að myndirnar séu aðgengilegar á Disney+ svo íslenskar fjölskyldur geti notið þeirra.“

„Þið eigið þetta“

Leikarinn Jóhannes Haukur er á meðal þeirra sem hafa þrýst á Disney varðandi talsetningu efnis á Disney+. Hann vakti athygli á málinu á Twitter í lok janúar og hlaut ábendingin góðar undirtektir.

„Hey Disney+, af hverju mynduð þið selja áskriftir án þess gera texta og talsetningu þess svæðis aðgengilega?“ spurði leikarinn á Twitter.

Hátt í tvö þúsund manns líkuðu við færslu Jóhannesar, en hann benti í kjölfarið á að íslenska væri eitt elsta tungumál í heimi. Með því að gera talsetningarnar aðgengilegar væri hægt að viðhalda tungumálinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.