Innlent

Dómur í Bræðra­borgar­stígs­málinu kveðinn upp í dag og húsið rifið fyrir 17. júní

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Dómur yfir Marek Moszczynski, sem ákærður er fyrir manndráp og manndrápstilraun með því að kveikja í húsinu, verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dómur yfir Marek Moszczynski, sem ákærður er fyrir manndráp og manndrápstilraun með því að kveikja í húsinu, verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. VÍSIR

Stefnt er að því að niðurrifi og hreinsun á brunarústunum við Bræðraborgarstíg 1 verði lokið fyrir 17. júní næstkomandi. Dómur yfir Marek Moszczynski, sem ákærður er fyrir manndráp og manndrápstilraun með því að kveikja í húsinu, verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við íbúa sem býr á móti húsinu að Bræðraborgarstíg sem brann fyrir tæpu ári síðan. Hann segist afar ósáttur við að húsið standi enn með öllu innbúi og furðar sig á því hvers vegna húsið hafi ekki verið rifið.

Bíða eftir heimild til að þrengja götur

Þorpið vistfélag keypti brunarústirnar af félaginu HD verk sem var eigandi hússins þegar bruninn varð. Runólfur Ágústsson fer fyrir félaginu.

„Við fengum á fimmtudaginn var, starfsleyfi til niðurrifs sem er langþráður áfangi. Nú erum við að bíða eftir því að fá heimild til þess að þrengja götur. Bæði Bræðraborgarstíg og Vestursgötu. Þar þarf að afmarka öryggissvæði með því að loka annarri akrein á báðum þessum götum á meðan húsið er rifið og um leið og það leyfi kemur þá förum við af stað. Við þurfum svona sex tíma til þess að hefja framkvæmdir. Markmiðið er að klára niðurrif og hreinsun fyrri 17. júní og þetta á ekki að þurfa að taka langan tíma.“

Runólfur vonast til að fá heimildina í dag eða á næstu dögum.

Hvers vegna hefur þetta tekið svona svakalega langan tíma? 

„Ég held að blessunarlega þá sé það nú þannig að svona stórbruni og svona hörmungaratburðir gerast ekki á hverjum degi í Reykjavík. Þannig að verkferlar eru kannski ekki mjög vel slípaðir. Það þarf leyfisveitingar,“segir Runólfur og nefnir sem dæmi byggingarleyfi.

„Svo eru það skipulagsyfirvöld, umhverfisráðuneyti og það eru margir aðilar sem koma að þessu og þetta tekur og hefur tekið afar langan tíma og þannig bara er það.“

Dómur kveðinn upp í málinu í dag

Í nýju húsnæði verða smáíbúðir fyrir eldri konur.

„Þarna erum við að þróa Baba yaga hugmyndafræði sem eru smáíbúðir fyrir eldri konur í nánu sambýli.“ 

Marek Moszczynski er ákærður fyrir manndráp og manndrápstilraunir með því að kveikja í húsinu. Dómur yfir honum verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 15 í dag.


Tengdar fréttir

„Gæti ekki verið senni­legra að hann hafi bara verið reykinga­maður?“

Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Mareks Moszczynski, pólsks karlmanns á sjötugsaldri, segir saksóknara í málinu ekki hafa sannað að Marek hafi kveikt í húsi við Bræðraborgarstíg 1 í fyrrasumar. Það eitt hafi verið sannað fyrir dómi og það er að Marek hafi glímt við andleg veikindi í aðdraganda og kjölfar brunans.

Krafa um ævilangt fangelsi eða vistun á öryggisgeðdeild

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fer fram á að Marek Moszczynski verði dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að verða valdur að dauða þriggja í eldsvoða við Bræðraborgarstíg í júní í fyrra.

Lokavitni, myndband og málflutningur á lokadegi

Síðasti dagur aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn Marek Moszczynski, pólskum karlmanni á sjötugsaldri, er í dag. Marek er ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps. Þrír fórust í brunanum að Bræðraborgastígi 1 í fyrrasumar. Hann hefur neitað sök og hefur jafnframt verið metinn ósakhæfur.

Síðasta degi aðal­með­ferðar frestað

Síðasta degi aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn Marek Moszczynski, pólskum karlmanni á sjötugsaldri sem ákærður er fyrir að hafa banað þremur með íkveikju að Bræðraborgarstíg í fyrrasumar, hefur verið frestað fram í næstu viku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×