Fótbolti

Aron Einar klár en Birkir Már ekki með vegna þéttrar dagskrár Vals

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birkir Már Sævarsson með skot að marki Mexíkó. Skömmu síðar lá boltinn í netinu.
Birkir Már Sævarsson með skot að marki Mexíkó. Skömmu síðar lá boltinn í netinu. getty/Omar Vega

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir líklegt að hann verði með sama hóp í leikjunum gegn Færeyjum og Pólverjum.

„Mjög líklega. Það gætu orðið einhverjar breytingar. Við erum með 24 leikmenn og vonum að allir komi heilir út úr leiknum gegn Færeyjum,“ sagði Arnar á blaðamannafundi KSÍ í dag. 

Hann sagði að Aron Einar Gunnarsson, sem fór af velli gegn Mexíkó, hafi tekið þátt í æfingunni í dag og staðan á honum væri góð.

Birkir Már Sævarsson lék allan leikinn gegn Mexíkó um helgina en fer ekki með til Færeyja og Póllands.

„Ástæðan er einfaldlega sú er að dagskráin hjá Val er aðeins stífari en hjá hinum liðunum í Evrópukeppnum. Það er erfitt að koma öllum leikjunum fyrir,“ sagði Arnar.

Hann kvaðst sáttur með tímann í Bandaríkjunum og leikinn gegn Mexíkóum.

„Við erum mjög ánægðir með Mexíkóleikinn og undirbúninginn. Við erum líka ánægðir með að sjá stíganda í því sem við kynntum í fyrsta sinn i mars,“ sagði Arnar.

Lars Lagerbäck, tæknilegur ráðgjafi íslenska liðsins, er ekki með í þessum verkefni.

„Lars er fjarverandi í þessum glugga einfaldlega því það er ekki búið að bólusetja hann að fullu,“ sagði Arnar. 

„Við tókum ávörðun að hann yrði ekki með. Þegar það er búið að bólusetja hann ætlum við að koma saman í sumar og fara yfir leikina sem búnir eru.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.