Innlent

Þingmenn skulda Samherja engar skýringar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar. vísir/Vilhelm

Rætt var um Samherjamálið í umræðum um störf þingisins á Alþingi í dag og gerði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, bréf sem fyrirtækið sendi menntamálaráðherra að umtalsefni.

Líkt og greint var frá í gær sendi lögmaður á vegum Samherja bréf til Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem þess var óskað að hún útskýrði nákvæmlega hvað hún átti við þegar hún sagði á þingi að fyrirtækið hefði gengið of langt.

„Ég vil líka segja það að mér finnst Samherji ganga of langt. Hann gengur of langt í sínum viðbrögðum og mér finnst eins og þetta sé gert til þess að þreyta laxinn og vonast til að hann gefist upp,” sagði Lilja aðspurð um álit á aðgerðum Samherja.

Guðmundur Andri sagði það ákaflega sérkennilegt samskiptaform að standa í bréfaskiftum af þesu tagi „Og lýsir hugsunarhætti manna sem telja sig ekki ríki í ríkinu, heldur ríki yfir ríkinu.”

„Kannski er rétt að það komi fram, svo að ekki fari neitt á milli mála, að alþingismenn heyra ekki undir Samherja. Alþingismenn sækja ekki til Samherja umboð sitt til starfa hér, heldur til kjósenda. Til almennings í landinu. Alþingismenn skulda Samherja engar skýringar á ummælum sínum sem falla í ræðustól hér,” sagði Guðmundur Andri.

Umrætt bréfið var sent 27. apríl af lögmanninum Arnari Þór Stefánssyni, eða degi eftir að Lilja lét ummælin um Samherja falla á þingi. Fór Arnar fram að hún útskýrði nákvæmlega hvað hún hefði átt við. Lilja svaraði ekki bréfi Samherja og hafði Kjarninn eftir henni að brýnni mál hafi verið sett í forgang.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×