Innlent

Bilun í lyfja­gátt setur starf­semi apó­teka í upp­nám

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Erfiðlega hefur gengið að afgreiða lyf í dag sökum bilunarinnar.
Erfiðlega hefur gengið að afgreiða lyf í dag sökum bilunarinnar. Vísir/Egill

Gátt hvert lyfseðlar eru sendir áður en lyf eru afgreidd í apótekum hefur að mestum hluta legið niðri frá því fyrir hádegi í dag. Lyfsali hjá Lyfju segir einn og einn lyfseðil komast í gegn, en margir viðskiptavinir hafi farið fýluferð eftir lyfjum í dag.

„Þetta er bara ástand, í rauninni. Heklugáttin liggur niðri, sem er ský fyrir okkur til að sækja lyfseðla,“ segir Anna Sólmundsdóttir, lyfsali hjá Lyfju í Lágmúla, í samtali við fréttastofu.

Hún segir vandamálið ekki liggja hjá apótekum landsins, heldur í umræddri Heklugátt sem nú liggur niðri. Anna kveðst ekkert geta fullyrt um hver ástæðan sé, en fyrirspurn hefur verið send á Landlæknisembættið í þeirri von um að stöðunni verði kippt í lag sem fyrst. Kerfið hafi nánast verið óvirkt frá því klukkan ellefu í dag.

„Það eru margir viðskiptavinir sem hafa þurft að fara til baka í dag og við hringjum þá kannski í þá þegar þetta er komið í lag. Einstaka lyfseðlar hafa komist í gegn en það tekur mjög langan tíma,“ segir Anna og kveðst gera ráð fyrir miklu álagi þegar kerfið verður aftur komið á fulla virkni.

Hún segir svipaðar bilanir hafa komið upp áður, það gerist öðru hvoru, en þær endist að jafnaði ekki jafn lengi og sú sem valdið hefur usla í apótekum landsins í dag.

„Því miður þá virðist þetta gerast öðru hvoru, nokkrum sinnum í mánuði. Oft eru þetta bara einhverjar hálftíma bilanir sem eru hvimleiðar, en endast ekki allan daginn,“ segir Anna, sem segir um eina lengstu bilunina að ræða.

„Það er samt of algengt að þetta sé að frjósa, eða það komi upp bilanir í kerfinu,“ segir hún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×