Innlent

Hætta á að hraun loki fólk inni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri lögreglu.
Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri lögreglu. Egill Aðalsteinsson

Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokað endanum á gönguleið A að gosinu í Geldingadölum vegna hættu á að fólk lokist inni þegar hraun renni yfir gönguleiðina en fyrirséð er að það muni gerast á næstunni. Vettvangsstjóri segir fólk hunsa lokunarborða. 

Á hádegi í gær tók lögregla ákvörðun um að loka endanum á gönguleið A, svokölluðum útsýnispalli sem er næst gosinu í Geldingadölum. Syðsta hraunið er komið það hátt að fyrirséð er að það muni flæða yfir enda gönguleiðarinnar. Af því getur skapast stórhætta því fólk staðsett á útsýnispallinum gæti lokast inni.

Brýnir fyrir fólki að virða lokanir

„Við erum búin að setja borða til að loka og mælum ekki með því að fólk fari þarna yfir en við reyndar erum búin að sjá að fólk er að lauma sér þarna yfir en þetta mun á næstu misserum bresta og leka syðst ofan í Meradalina,“ sagði Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður og vettvangsstjóri á svæðinu.

Hann segir óvíst hvenær hraun fari yfir gönguleiðina en það muni gerast á næstunni. Hann ítrekar hættuna á svæðinu og brýnir fyrir fólki að fara ekki yfir lokunarborðann.

„Það er hættulegt því það mun lokast inni, það á að sjá það að það er aðeins hreyfing á hrauninu þarna fyrir ofan. Við vitum ekki hvort þetta gerist í dag, kvöld eða nótt en þetta mun koma þarna yfir gönguleiðina,“ sagði Hjálmar.

Gönguleiðinni breytt

Áfram verður hægt að ganga að gosinu en gönguleiðinni hefur verið breytt vegna þessa.

„Það var gert í gærkvöldi og þá fer fólk upp á annan hól þarna rétt sunnar og það er búið að merkja það, þannig að fólk ætti að sjá það þannig það verður næsti útsýnisstaður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×