Innlent

Skotfélagið skaut sig í fótinn þegar það rak Stefán Rúnar úr félaginu

Jakob Bjarnar skrifar
Lok, lok og læs. Stefán Rúnar Bjarnason húsasmíðameistari er afar ósáttur við að hafa verið rekinn úr félaginu og fór með málið alla leið. Á málinu eru ýmsar hliðar, Rúnar segir til að mynda að þó hann hafi verið rekinn hafi hann verið rukkaður um árgjaldi eftir brottreksturinn.
Lok, lok og læs. Stefán Rúnar Bjarnason húsasmíðameistari er afar ósáttur við að hafa verið rekinn úr félaginu og fór með málið alla leið. Á málinu eru ýmsar hliðar, Rúnar segir til að mynda að þó hann hafi verið rekinn hafi hann verið rukkaður um árgjaldi eftir brottreksturinn. vísir/vilhelm

Í vikunni féll dómur í héraði þar sem Skotíþróttafélag Kópavogs var dæmt til að greiða Stefáni Rúnari Bjarnasyni húsasmíðameistara bætur vegna ólögmætrar brottvikningar úr félaginu.

Málið er hið athyglisverðasta. Stefán Rúnar, sem jafnan er kallaður Rúnar, vandar fyrrum félögum sínum í Skotíþróttafélagi Kópavogs (SK) ekki kveðjurnar, segir sig hafa mátt sitja undir lygum, óhróðri og mátt sæta einelti af hálfu stjórnar. Friðrik Goethe er formaður SK hafnar því hins vegar alfarið. Segir Rúnar hafa ítrekað brotið öryggisreglur og verið orðinn stórhættulegan sjálfum sér og öðrum og það hafi ekki verið neitt annað í stöðunni að vísa honum á dyr. Gæta hafi þurft að öryggi annarra félaga. Hann hlaut að fara.

Rúnar fór fram á það fyrir dómi að ákvörðunin um brottvikningu, sem tekin var á aukafundi stjórnar hinn 19. desember 2018 og staðfest var á aðalfundi stefnda hinn 27. febrúar 2020, yrði felld úr gildi og til vara að umrædd ákvörðun hafi verið ólögmæt. Þá krafðist hann þess að fá greidda 1,3 milljón króna frá Skotfélaginu. Niðurstaða dómara var sú að ekki hafi verið staðið að brottrekstrinum með réttum hætti og voru Rúnari dæmdar 200 þúsund krónur í skaðabætur og SK þurfti að greiða eina milljón í málskostnað.

Mikil réttlætiskennd einkennir Rúnar

Lögmaður Rúnars, Gunnar Ingi Jóhannsson segist ekki muna eftir öðru eins máli. Hann segir að dómarinn hafi fallist á öll rök Rúnars í málinu og þessi brottrekstur hafi verið eins ólögmætur og kostur var. „Feilskot, langt yfir markið eða félagið hafi skotið sig í fótinn,“ segir Gunnar Ingi í samtali við Vísi.

Gunnar Ingi Jóhannsson er lögmaður Rúnars. Hann segir mikla réttlætiskennd einkenna skjólstæðing sinn, ekki margir sem standa með sér með þeim hætti sem Rúnar hafi gert, þegar hann taldi á rétti sínum brotið.vísir/vilhelm

Lögmaðurinn segir að þarna virðist sem orðið hafi hallarbylting í félaginu; stjórn og aðrir gæðingar setið að aðstöðunni. Auglýstir opnunartímar en svo þegar óbreyttir mættu hafi verið búið að taka frá alla bestu básana. Menn hafi reynt að lifa með því þar til þeir eru svo teknir af lífi. „Þá er um að gera að leita réttar síns. Það þarf mikla réttlætiskennd til að standa með sér í svona stöðu. Þetta snýst um félagafrelsi, ekki bara réttinn til að standa utan félaga heldur vera félagi í félagi sem maður vill vera í.“

Rúnar var að vonum ánægður með dóminn þegar Vísir ræddi við hann fyrr í vikunni. Hann hefur ýmislegt út á þessa félagið og ÍSÍ að setja í því sem snýr að langri vegferð með þetta mál. Rúnar segist hafa reynt, strax í upphafi, að kalla ÍSÍ að málum.

„Þá deild sem er hjá ÍSÍ sem sér um skotfélagið sem slíkt. Ef það myndi til dæmis hætta myndu reiturnar ganga þarna til þessa ungmennafélags, Kjalanessþings,“ segir Rúnar en hafði ekki erindi sem erfiði. Þar á bæ sögðust menn ekkert geta gert.

„Ekki það, ágætis menn og allt það en þeir sögðust ekki geta gert neitt. Það hefur verið gegnumgangandi ef maður hefur leitað til aðila að þeir, jújú, vilja hlusta en svo kemur í ljós að þeir eru einskis megnugir. Hvort sem það er að þeir nenni því ekki.“

Segir þá hjá ÍSÍ liðleskjur

Þá leitaði Rúnar til Lárusar Blöndal forseti ÍSÍ og náði á hann eftir ítrekaðar tilraunir.

„Hann sagði að þetta hefði átt að vera meðhöndlað á lægri stigum. Lengra náði ekki umræðan. Alveg sama hvert maður leitaði, til að fá einhvern vitrænan botn í þetta, voru engin svör. Ég hef engan veginn getað skilið það hvorki fyrr né síðar en það mætti halda að þessi sella, Íþróttafélag Kópavogs, séu einstaklingar sem engin lög eða reglur ganga yfir? 

Rúnar hrósar sigri eftir að dómur féll í málinu. Brottvikning hans var ólögmæt. Hann segir margt í þessu sérstaka máli sem erfitt sé að sætta sig við.vísir/vilhelm

Þetta er mér venjulegum dauðlegum manni alveg óskiljanlegt og hefur verið öllum stundum. Menn eru vanir því að þeim sé hampað, með veisluhöldum heldur en að bregðast við því þegar brotið á mönnum, alvarlegur hlutur. Slík framkoma á ekki að líðast með neinum hætti. Hefði haldið að það ætti að vera einhver íþróttadómstóll sem tæki til efnismeðferðar mál sem þetta en það var ekki.“

Rúnar segir það ámælisvert að ekki skuli vera til klárar verklagsreglur til að mæta vanda sem þessum.

„Að ekki liggi fyrir klárar reglur um, þegar menn ganga í íþróttafélög, hverjar eru hans skyldur og ekki síður réttindi. Menn eru að eyða tíma og fjármunum í þetta en eiga svo yfir höfði sínu að mannorði þeirra sé rústað, fólks sem ekkert hefur til saka unnið. Þetta er svo alvarlegt þegar aðilar sem mynda stjórn í einhverjum félögum eiga ekki að hafa neitt um þessi mál að segja enda geta þeir ekki í neinu talist hlutlausir aðilar. 

Lárus Blöndal er formaður ÍSÍ en Rúnar er afskaplega ósáttur við dugleysið sem einkennir yfirstjórn íþróttahreyfingarinnar. Þar vísaði hver á annan.vísir

Þess vegna er ég ósáttur við ÍSÍ og allt það batterí, frá Lárusi Blöndal og niður úr eðli máls samkvæmt. Ef menn vilja vera í svona störfum, taka þau að sér til að fá einhverjar skrautfjaðrir í hattinn, þá eiga þeir líka að taka á vandamálum sem koma upp. En ekki hunsa þau og ýta út í eitthvert myrkur sem ekkert kemur út úr.“

Segir skotfélagsfólk hafa boðið uppá lygi og bull í dómsal

Ljóst má vera, og hvorki blaðamaður né lesendur, ættu að ímynda sér annað en Rúnar hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að koma skikki á þetta.

„En ég hef aldrei séð neitt sem heitir réttlæti nema í sambandi við þennan dóm. Hún virðist vera svo vitiborin þessi dómari að hún átti sig á staðreyndum og svo bulli. Þetta var allt meira og minna skáldskapur sem þau buðu uppá í dómssal. Stemmir ekkert saman og þessi föðurlega umhyggja sem þau þóttust bera fyrir mér styðst ekki við neinn sannleika. Lygi og bull og ég hélt að fólk myndi ekki voga sér slíkt fyrir rétti.“

Rúnar nefnir sérstaklega að hjá Skotfélaginu hafi verið starfandi lögreglumaður og það hljóti að vera umhugsunarefni þegar í ljós komi að hann segi ekki satt.

Bak við þessar rammgerðu luktu dyr hefur Skotíþróttafélag Kópavogs aðsetur sitt. Í kjallara Digranesskóla. Þar hefur Rúnar ekki fengið að koma inn fyrir dyr síðan hann var rekinn þaðan í desember 2018. Því vildi hann ekki una.vísir/vilhelm

„Hann starfaði ekki þarna sem slíkur, en hann var fastur í hlutverkinu. Hann sem talaði um að þetta yrði tilkynnt til lögreglunnar.“

Hvað átti að tilkynna til lögreglunnar?

„Væntanlega með loftbyssuna,“ segir Rúnar og kemur þá loks að yfirlýstri ástæðu stjórnar fyrir því að hann var rekinn úr skotfélaginu.

„Ég veit ekki hvað hann hefur ætlað að tilkynna fyrir það fyrsta. Ef þetta hefur verið krímínalt ástand er sjálfsagt að gera það en þetta er eitt allsherjar bull. Einhverra hluta vegna er einelti greinilega það sem sellan vill og kann.

Stjórn skotveiðifélags Kópavogs, og fylgifiskarnir. Ekki má gleyma þeim. Í þessu réttarhaldi voru sex manns sem mættu frá félaginu, þar af voru þrír sem greinilega treystu sér ekki til að standa andspænis öðrum og bera rangar sakagiftir á viðkomandi og kusu að gera þetta í gegnum síma.“

Atvikið sem fyllti mælinn

Rúnar er trésmíðameistari og hef starfað sem iðnmeistari í marga áratugi. Hann er 66 ára gamall og er að sögn seint á þessu ári að detta inn í það að verða einn af þessum ellismellum. Rúnar lýsir atvikinu sem gefið var upp sem ástæðan fyrir því að hann var látinn fjúka úr félaginu.

Hann var staddur í hinu svokallaða „Lofti“, sal þar sem skotið er af loftbyssum en annar salur er Púðrið þar sem skotið er föstum skotum hlöðnum.

„Ég er þar ásamt einum öðrum sem er vitni að þessu öllu saman. Ég hitti skoti gjörsamlega í miðjuna eins vel og hundrað prósent og hægt er. Þetta eru eins skota loftbyssur,“ segir Rúnar og lýsir því nákvæmlega hvernig menn bera sig að við að skjóta úr þeim.

„Ég beygi mig til hliðar og bendi þessum skotstjóra, sem er krakki rétt liðlega tvítugur að ég held, að koma til að hann sjái á skjáinn: Eins beint í miðjuna eins og hægt er að hafa þetta.“

Rúnar telur sig hafa mátt sæta einelti af hálfu stjórnar og hennar fylgifiska.vísir/vilhelm

Rúnar segist hafa fundið þegar hann mætti á staðinn að einhver andúð lá í loftinu. „Ég bað hann um byssu og hann stendur fyrir framan skápinn og aðhefst ekki neitt, eins og hann sé að fletta upp í hausnum á sér. Ætlarðu ekki að láta mig hafa byssu, spurði ég. Ég veit og vissi þá að einhver umræða var búin að eiga sér stað. Þetta er svona sellufyrirkomulag á þessu. Þarna standa þau saman og menn geta verið afsettir með ýmsu móti.“

Rúnar segist hafa hallað sér til hliðar svo hinn ungi skotstjóri sæi á skífuna hversu vel var hitt.

„En þá afmyndaðist á honum andlitið, eins og ég hefði sett ungbarnaskítableyju við vit hans, en þessi drengur hefur ekki verið neitt óalmennilegur. 

Ég áttaði mig á því að hann var búinn að snúa við blaðinu og þau öll. Ég er ekki einn um það, maður mætti vel og nýtti tímann. Við vorum einfaldlega fyrir.“

Segir Rúnar hafa farið gáleysislega með vopnin

Skotstjórinn tilkynnti að Rúnar hafi beint að honum byssunni sem er stranglega bannað í öllum skotfélögum og/eða þar sem skotfimi er stunduð.

Rúnar hafnar því hins vegar alfarið að hafa beint loftbyssunni að skotstjóranum unga. Hann bendir á að byssan hafi verið óhlaðin, augljóslega og á það fellst dómarinn í dómsorði. Rúnar segist hafa haft byssuleyfi lengur en að hann muni og hafi ákveðið, fyrir orðastað vinar síns, að mæta í húsakynni SK og æfa skotfimi sem áhugamál. Og svo fái hann yfir sig lygavaðal um að hann sé hættulegur umhverfi sínu. Hann ljúgi ekki, hann hafi verið áratugum saman á vinnumarkaði og sér hafi lynt vel við alla. „Þetta er bara einelti,“ segir Rúnar. „Og þetta fólk gerir engan greinarmun á lygi og sannleika.“

Friðrik Goethe er formaður SK og hann hafnar þessu alfarið, hvorki sér né öðrum hafi verið illa við Stefán Rúnar. En þetta hafi beinlínis verið orðið hættulegt ástand.

„Hann fór gáleysislega með vopn ítrekað og virti ekki öryggisreglur.“

En dómarinn féllst ekki á málsvörn þeirra í Skotfélaginu. „Já, það hallar á okkur með sönnunargildið. Við vorum ekki með verkferlana á hreinu varðandi agabrot. En það er vegna þess að við höfum aldrei lent í svona einstaklingum. Fólk ber virðingu fyrir skotvopnum og man hvernig á að meðhöndla þau,“ segir Friðrik sem vill meina, þrátt fyrir orð Rúnars, að hann hafi fengið tilsögn og ítrekað verið bent á að gæta að öryggisreglum. Þessu hins vegar hafnar Rúnar alfarið og er þar orð gegn orði.

„Svo kemur einstaklingur sem ber ekki eins mikla virðingu fyrir skotvopnum og aðrir og hvað á maður að gera til að tryggja öryggi fólks?“ spyr formaðurinn.

Segir rangt að þeim hafi verið illa við Rúnar

Friðrik segir að málið sé viðkvæmt og það hafi ekki verið þeirra vilji að málið rataði í fjölmiðla. En það breytir ekki því að fyrir liggur dómur í málinu. Og Rúnar hrósar sigr.

„Jájá, hann vinnur þetta mál. Við rákum hann á rangan hátt. Við túlkum dóminn þannig að við hefðum átt að gera hlutina öðru vísi og standa öðru vísi að brottrekstrinum. Það segir dómurinn okkur. En þá spyr ég: á stjórn skotfélags ekki að hafa vald til að ákvarða um þá menn sem meðhöndla skotvopn í skotfélaginu?“

Friðrik Goethe er formaður Skotíþróttafélags Kópavogs. Hann hafnar því alfarið að andúð hafi ráðið því að Rúnar var rekinn úr klúbbnum, það hafi einfaldlega verið svo að hann var farinn að ógna öryggi félaga með gáleysislegri meðhöndlun á vopnum.aðsend

Formaðurinn fellst fúslega á að þetta sé afar sérkennilegt mál. „Lögin sem við þurfum að gangast undir frá ÍSÍ eru sömu lög og gilda um borðtennis eða badminton félagið og það finnst okkur ekki réttlátt.“

En hvað um það sem Rúnar segir um að honum hafi mætt andúð og jafnvel að hann hafi mátt sæta einelti?

„Þetta er alrangt. Hann spjallaði við okkur á kaffistofunni, það voru eðlilegar samræður og okkur líkaði mjög vel við hann. Þannig lagað séð. 

En þegar hann var kominn með byssu í hönd áttu félagsmenn okkar það til að pakka saman og fara því þeir ætluðu ekki að vera viðstaddir neitt slys. 

Ímyndaðu þér að labba við hliðina á manni sem veifar ítrekað hlaupinu í átt að þér? Við tökum þessari ákvörðun ekki af neinni léttúð að reka mann úr félaginu. Og þetta er ekkert einelti eða að okkur sé illa við manninn né neitt svoleiðis.“

Friðrik segir að ákvörðunin hafi svo verið tekin eftir umrætt atvik sem fyllti mælinn. „Hann beindi byssunni beint á skotstjórann og sagði: Komdu, sjáðu, sjáðu. Eftir að hafa hitt vel í mark. Það gerði útslagið.“

Ósátt við að geta ekki vikið fólki frá

Formaðurinn segir nú liggja fyrir að þau hjá SK þurfi að fara vandlega yfir alla verkferla. Yfirleitt hafi þetta gengið svo til að eðlileg leið væri að leiðbeina fólki, benda því á hvað þyrfti að hafa í huga. „En þetta var löngu komið yfir það. þetta var orðið hættulegt og fólki leið illa í kringum hann.“

Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvort málinu verði áfrýjað. En víst sé að þau í stjórn séu ósátt við að hún geti ekki skotfélags geti ekki vikið manni frá skilyrðislaust.

„Þetta er mjög athyglivert mál, leiðinlegt og erfitt. Það langaði engan að gera þetta. En þetta var eina leiðin, hann varð að fara. Öryggi félagsmanna okkar er metið meira en einhverjir peningar. Við vorum tilbúin að taka afleiðingunum eða hætta á að einhverjum sárnaði.“

Formaðurinn bendir á, og hann segist ósáttur við það í dómsorðinu, að tekið hafi verið sérstaklega til þess að loftbyssan hafi ekki verið hlaðin. Ávallt skuli meðhöndla vopn eins og þau séu hlaðin og aldrei megi beina byssuhlaupi að manneskju. Það sé ófrávíkjanlegt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×