Fótbolti

UEFA í hart gegn óhlýðnu félögunum Real Madrid, Barcelona og Juventus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksander Ceferin, forseti UEFA, ætlar ekki að gefa neitt eftir í þessu máli.
Aleksander Ceferin, forseti UEFA, ætlar ekki að gefa neitt eftir í þessu máli. Getty/Harold Cunningham

Knattspyrnusamband Evrópu hefur hafið mál gegn þremur af stærstu fótboltafélögum álfunnar vegna aðkomu þeirra að stofnum Ofurdeildar Evrópu.

Barcelona, Juventus og Real Madrid voru meðal tólf stofnmeðlima Ofurdeildarinnar sem dó aðeins nokkra daga gömul en ólíkt hinum níu hafa þau neitað að falla frá plönum sínum. UEFA sendi frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að sambandið hafi nú byrjað málsmeðferð gegn þessum félögum.

UEFA reyndi fyrst að fara samningaleiðina en ekkert kom út úr því og því hefur sambandið hafið málsmeðferð gegn Real Madrid, Barcelona og Juventus fyrir brot á regluverki Knattspyrnusambands Evrópu.

Aleksander Ceferi, forseti UEFA, varaði þessi félög við því á dögunum að ef þau segjast vera í Ofurdeildinni þá geti þau að sjálfsögðu ekki spilað í Meistaradeildinni.

Liðin sem voru með í byrjun en hafa síðan hætt við þátttöku í Ofurdeildinni eru Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Tottenham Hotspur, AC Milan, Inter Milan og Atletico Madrid.

Þessi níu félög féllust á beiðni UEFA um að sameinast um að gefa fimmtán milljónir evra í samvinnuverkefni til styrktar barna- og unglingafótbolta í Evrópu. Öll þessi félög munu líka missa fimm prósent af sínum hluta af sínum Evróputekjum frá UEFA í eitt tímabil.

Til að koma í veg fyrir frekar Ofurdeildarævintýri í framtíðinni þá hafa þessi níu félög einnig skrifað undir hollustu samning við UEFA sem myndi þýða hundrað milljóna evru sekt ef þau reyndu að ganga til liðs við keppni í óleyfi í framtíðinni.

Florentino Perez, forseti Real Madrid, er einn af aðalmönnunum á bak við Ofurdeildina, hefur haldið því fram að félögin níu sem samþykktu að stofna Ofurdeildina séu með bindandi samninga og geti því ekki hætt við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×