Innlent

Sagðist vera að prufukeyra bifreið en reyndist sjálfur eigandinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gærkvöldi ökumann bifreiðar í Mosfellsbæ þar sem bifreiðin var án skráningarnúmera og ótryggð. Sagðist ökumaðurinn vera að prufukeyra bílinn þar sem hann væri að hugsa um að kaupa hann en reyndist vera skráður eigandi bifreiðarinnar.

Þá var tilkynnt um nytjastuld bifreiðar í Kópavogi í nótt. Lögreglumenn rákust á bifreiðina á Snorrabraut skömmu síðar og gáfu stöðvunarmerki sem ökumaðurinn hunsaði. Var hann stöðvaður stuttu seinna, reyndi að komast undan en var handtekinn.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna, nytjastuld bifreiðar, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu, umferðaróhapp og eignaspjöll.

Einn var handtekinn í nótt fyrir líkamsárás og annar þar sem hann reyndi að brjótast inn í húsnæði í miðborginni. Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×