Innlent

Fordæma skæruhernað Samherja gagnvart pólítíkinni og fjölmiðlum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir ræddu við RÚV í hádeginu.
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir ræddu við RÚV í hádeginu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra, segist ekki hafa fengið veður af tilraunum „skæruliðadeildar“ Samherja til að hafa áhrif á uppröðum á framboðslistum flokksins fyrir kosningarnar í haust.

„Mér finnst auðvitað óeðlilegt almennt ef fyrirtæki vilja hafa áhrif á framboðsmál stjórnmálaflokka. En ég get nú ekki sagt að ég hafi orðið var við það eða hafi haft spurnir af því að það hafi haft einhver áhrif,“ sagði Bjarni í hádegisfréttum RÚV.

Var hann þar spurður um fregnir af samtölum starfsmanna Samherja um að hafa áhrif á prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

„Liggur það ekki bara fyrir á lista yfir frambjóðendur að það virðist ekki hafa gengið eftir sem menn voru að véla um?“ bætti Bjarni við og vísar þar til þess að Njáll Trausti Friðbertsson, sem Samherjamenn vildu ekki á lista, hefur boðið sig fram í fyrsta sætið.

Bjarni sagðist ekki hafa átt í samskiptum við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, eftir að greint var frá málinu um helgina né heldur sagði hann umræðu hafa átt sér stað um það hvort flokkurinn myndi taka við fjárframlögum frá fyrirtækinu fyrir næstu kosningar.

Í hádegisfréttunum var einnig rætt við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem gagnrýndi harðlega meintar tilraunir til að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands.

„Það að fyrirtæki sé að beita sér annars vegar í kjöri hjá Blaðamannafélaginu og hins vegar hugsanlega gagnvart því hvernig stjórnmálaflokkar eru að stilla upp á sína lista finnst mér náttúrlega með öllu óásættanlegt,“ sagði hún.

Afskiptin færu langt út fyrir eðlileg mörk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×