Fótbolti

Arnór Ingvi lagði upp tvö mörk í sigri á New York Red Bulls

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi var frábær í 3-1 sigri sinna manna í nótt.
Arnór Ingvi var frábær í 3-1 sigri sinna manna í nótt. Andrew Katsampes/Getty Images

Arnór Ingvi Traustason og Guðmundur Þórarinsson voru báðir í byrjunarliðum liða sinna í MLS-deildinni í knattspyrnu í nótt. Aðeins Arnór Ingvi var þó í sigurliði og segja má að landsliðsmaðurinn eigi hvað stærstan þátt í sigrinum.

Arnór Ingvi var á vinstri væng New England Revolution er liðið vann góðan 3-1 sigur á New York Red Bulls. Andres Reyes átti eftirminnilegan leik í liði Red Bulls en hann kom gestunum yfir á 7. mínútu, fékk gult á 31. mínútu, annað gult og þar með rautt sjö mínútum síðar.

Milli gulu spjaldanna hafði Gustavo Bou jafnað metin eftir sendingu Arnórs. Tajon Buchanan kom svo New England yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks, aftur var það Arnór sem lagði upp mark heimamanna.

Arnór var svo tekinn af velli þegar rúmur klukkutími var liðinn og var því ekki inn á er heimamenn bættu við þriðja marki sínu og tryggðu sér 3-1 sigur.

Guðmundur lék í stöðu vinstri vængbakvarðar í 2-1 tapi New York City á heimavelli fyrir Columbus Crew. Heimmenn komust yfir snemma leiks en gestirnir jöfnuðu á 82. mínútu. Guðmundur var svo tekinn af velli á 87. mínútu en sigurmarkið kom þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Arnór Ingvi og félagar eru sem stendur í efsta sæti Austurdeildar með fjóra sigra, tvö jafntefli og eitt tap að loknum sjö leikjum. Guðmundur og félagar sitja í 6. sæti að loknum sem leikjum með tvo sigra, tvö jafntefli og tvö töp í farteskinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×