Innlent

Níu ára túbuleikari slær í gegn í Reykjanesbæ

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Rósa Kristín að spila á túbuna sína í garðinum heima hjá sér í Ytri Njarðvík í Reykjanesbæ.
Rósa Kristín að spila á túbuna sína í garðinum heima hjá sér í Ytri Njarðvík í Reykjanesbæ. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Níu ára stelpa í Reykjanesbæ hefur vakið athygli fyrir snilli sína við að spila á Túbu en hún var aldrei í vafa þegar hún ákvað að fara í tónlistarskóla, að á túbu skyldi hún læra.

Rósa Kristín Jónsdóttir býr í Ytri Njarðvík í Reykjanesbæ. Hún er í Njarðvíkurskóla og í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, auk þess sem hún æfir körfubolta og dans. Hún byrjaði að læra á túbu fyrir einu og hálfu ári en það er stærsta hljóðfærið í fjölskyldu málmblásturshljóðfæranna og ekki á allra færi að blása í það.

„Þegar ég sá hljóðfærið í fyrsta skipti, þá sagði ég bara, vá, mér finnst þetta örugglega mjög skemmtilegt og ég byrjaði þá bara að æfa á það. Mér finnst túban ekkert þung, ég er búin að æfa svo lengi að hún er bara orðin létt“, segir Rósa Kristín.

Rósa segir að fólk verði oft mjög hissa þegar það sjái hana spila á túbuna.

Rósa Kristín er ung og ákveðin stelpa, sem stefnir á að verða hljóðfæraleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands með túbuna sína. Hún spilaði á túbuna á 10 ára afmæli tónlistarhússins Hörpu nýlega.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Já, það spyr, vá, getur þú alveg haldið á þessu og prufar á halda á túbunni og segir, vá hvað þetta er þungt.“

Rósa Kristín er með markmið sín á hreinu en það er að spila í Sinfóníuhljómsveit Íslands þegar hún verður orðin fullorðin

„Já, ef ég æfi mig mikið og hætti ekki, þá kemst ég örugglega í Sinfóníuhljómsveitina.“

Rósa hefur líka mjög gaman af því að syngja og þá æfir hún körfubolta nokkrum sinnum í viku með Njarðvík, auk þess að æfa dans.

Körfubolti er í miklu uppáhaldi hjá Rósu Kristínu.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.