Innlent

Per­sónu­vernd telur öryggis­á­hættu geta skapast við endur­merkingu leg­háls­sýna við flutning milli landa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sýnin eru merkt bæði íslenskri og danskri kennitölu.
Sýnin eru merkt bæði íslenskri og danskri kennitölu.

Persónuvernd telur að mögulega muni reyna á álitaefni varðandi öryggi í tengslum við notkun danskra kennitalna og tengsl þeirra við íslenskar kennitölur, þegar leghálssýni eru flutt úr landi til rannsókna í Danmörku.

Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar, sem samið var í kjölfar þess að velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir því að Persónuvernd fjallaði um flutning sýnanna utan, meðal annars með tilliti til umgjarðar og öryggis.

Persónuvernd fékk þær upplýsingar frá Landlæknisembættinu að sýnin væru send utan með strikamerkjum, dönskum kennitölum og íslenskum kennitölum til að upplýsingar skiluðu sér rétt til baka, svo og nauðsynlegum upplýsingum sem kynnu að skipta máli, til dæmis hvort viðkomandi hefði áður greinst með krabbamein og/eða farið í keiluskurð.

Í álitinu segir spurningar vakna um öryggi í tengslum við notkun danskra kennitala og tengsl þeirra við íslenskar kennitölur, meðal annars vegna þess að öryggisáhætta geti skapast þegar endurmerkja þurfi upplýsingar sem verða til við greiningar á sýnum.

„Hefur Persónuvernd í því ljósi óskað skýringa frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á því hvernig leitast er við að tryggja öryggi við auðkenningu sýna sem send eru til Danmerkur og upplýsinga sem til verða við rannsóknir á þeim,“ segir í álitinu.

Persónuvernd telur hins vegar ekki reyna á sérstök lagaleg álitaefni við það eitt að umrædd lífsýni séu flutt til Danmerkur umfram það sem gæti orðið vegna flutnings innanlands.

„Jafnframt er hins vegar ljóst að við flutning sýnanna þarf að gæta fyllsta öryggis og að öll vinnsla persónuupplýsinga sem byggist á sýnunum verður að samrýmast lögum nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679.“

Tengd skjöl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×