Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er nýr formaður Viðreisnar. Kosið var um þetta á fundi ráðgjafaráðs flokksins. Engin breyting verður á varaformanni svo Jóna Sólveig Elínardóttir verður áfram í því hlutverki. Benedikt Jóhannesson stígur til hliðar sem formaður en samkvæmt heimildum Vísis gefur hann áfram kost á sér og verður áfram í flokknum. Fundinum er ekki lokið.
Samkvæmt heimildum fréttastofu voru nokkrir meðlimir Viðreisnar að íhuga síðustu daga að taka nafn sitt af framboðslista flokksins ef Benedikt yrði áfram formaður. Þessi breyting á formanni kemur í kjölfar óánægju og reiði á meðal Viðreisnarfólks með frammistöðu og ummæli Benedikts Jóhannessonar, formanns flokksins, í Forystusætinu á RÚV á mánudagskvöld.
Í Fréttablaðinu í dag kom fram að formannsstóll Benedikts hafi verið í senn sjóðheitur sem og valtur síðan ríkisstjórnarsamstarfið sprakk og gerðu ummælin um tilefni stjórnarslitanna á RÚV lítið til að auka vinsældir hans meðal flokksmanna. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis er Viðreisn með 3,3 prósenta fylgi. Yrði þetta niðurstaða kosninganna næði Viðreisn ekki inn einum þingmanni.
Þorgerður Katrín er nýr formaður Viðreisnar

Tengdar fréttir

Ráðgjafaráð fundar um stöðu formanns Viðreisnar: Benedikt er á staðnum
Fundur stendur yfir hjá ráðgjafaráði Viðreisnar um stöðu Benedikts Jóhannessonar formanns flokksins.

Benedikt skammaður af ósáttum flokksfélögum í Viðreisn
Veruleg óánægja og reiði er meðal Viðreisnarfólks með frammistöðu og ummæli Benedikts Jóhannessonar, formanns flokksins, í Forystusætinu á RÚV á mánudagskvöld.

Segir Sjálfstæðisflokkinn óstöðugan í samstarfi
Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið óstöðugur í ríkisstjórnarsamstarfi.

VG enn langstærst en Píratar tapa fylgi
Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur standa nánast í stað milli vikna. Píratar tapa tæplega þremur prósentustigum milli vikna. Viðreisn og Björt framtíð áfram á botninum.