Gylfi lagði upp sigur­mark E­ver­ton og Evrópu­draumurinn lifir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi í baráttunni við Adama Traore í dag.
Gylfi í baráttunni við Adama Traore í dag. Jon Super/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp sigurmark Everton er liðið vann 1-0 sigur á Wolves á heimavelli í 37. umferð enska boltans.

Everton hefur gengið afleitlega á heimavelli á leiktíðinni en tókst loksins að vinna leik á heimavelli er Úlfarnir heimsóttu Goodison þar sem áhorfendur voru á pöllunum.

Sigurmarkið kom á 48. mínútu. Gylfi tók þá hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Richarlison sem stangaði boltann í netið.

Gylfi var svo nálægt því að tvöfalda forystuna síðar í hálfleiknum en boltinn fór rétt fram hjá markinu. Lokatölur 1-0.

Everton er með 59 stig í áttunda sætinu en Tottenham er einnig með 59 stig, í sjötta sætinu. Tottenham tapaði 2-1 fyrir Aston Villa á heimavelli. Ein umferð er eftir af deildinni.

Steven Bergwijn kom Tottenham yfir á áttundu mínútu en sjálfsmark Sergio Reguilon og mark frá Ollie Watkins í fyrri hálfleik tryggðu Aston Villa sigurinn.

Aston Villa er í ellefta sætinu með 52 stig.

Newcastle vann svo 1-0 sigur á Sheffield United. Joseph Willock skoraði sigurmarkið en Newcastle er í fimmtánda sætinu á meðan Sheffield er á botninum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira