Innlent

Far­þegar frá enn fleiri löndum fara í sóttvarnahús

Eiður Þór Árnason skrifar
Sóttvarnahús er meðal annars starfrækt á Fosshótel Reykjavík í Þórunnartúni.
Sóttvarnahús er meðal annars starfrækt á Fosshótel Reykjavík í Þórunnartúni. Vísir/Vilhelm

Farþegum frá alls 164 ríkjum eða svæðum verður gert að dvelja í sóttvarnahúsi við komuna til Íslands með möguleika á undanþágu frá og með 18. maí. Áður var 131 ríki eða landsvæði á listanum en krafan nær til svæða þar sem nýgengi smita er 500 til 699 og hlutfall jákvæðra sýna er undir fimm prósent.

Þetta kemur fram í nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um svæði og lönd sem metin eru sérstök áhættusvæði vegna Covid-19. Eftir gildistöku hennar þurfa vottorðslausir farþegar frá fimmtán ríkjum að dvelja skilyrðislaust í sóttvarnarhúsi á meðan beðið er niðurstöðu landamæraskimunar.

Eru þetta ríkin Andorra, Argentína, Barein, Frakkland, Grænhöfðaeyjar, Holland, Króatía, Kýpur, Litháen, Seychelles-eyjar, Serbía, Svíþjóð, Tyrkland, Ungverjaland og Úrúgvæ.

Eru þau nú tveimur færri en í fyrri auglýsingu og geta farþegar frá Póllandi og meginlandi Spánar nú sótt um undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.Vísir/Vilhelm

Þurfa að sækja um undanþágu tveimur sólarhringum áður

Samkvæmt núgildandi viðmiðum stjórnvalda þarf fólk frá svæðum þar sem nýgengi smita er 700 eða meira að fara skilyrðislaust í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þetta á einnig við ef nýgengi smita er á bilinu 500 til 699 og hlutfall jákvæðra sýna er 5% eða hærra, eða ef nýgengi er yfir 500 en fullnægjandi upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir.

Umrædd auglýsing heilbrigðisráðherra um sérstök áhættusvæði á að gilda til 25. maí næstkomandi en þar má sjá lista yfir öll 179 svæðin. Farþegar sem geta sótt um undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi þurfa að sækja um hana minnst tveimur sólarhringum áður en þeir koma til landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×