Innlent

Hjalla­stefnan flytur úr hús­næðinu í Öskju­hlíð og ó­vissa um fram­haldið

Atli Ísleifsson skrifar
Askja, leikskóli Hjallastefnunnar í Öskjuhlíðinni.
Askja, leikskóli Hjallastefnunnar í Öskjuhlíðinni. hjallastefnan

Askja, leikskóli Hjallastefnunnar í Öskjuhlíð í Reykjavík, mun þurfa að flytja úr núverandi húsnæði sumarið 2022. Eftir að hafa undanfarin ár fengið leyfi til starfsins framlengd um takmarkaðan tíma í senn er nú óhjákvæmilegt fyrir leikskólann að rýma lóðina sem um ræðir, Nauthólsveg 87.

Þetta kemur fram í bréfi skólastjórnenda til foreldra og forráðamanna leikskólabarna fyrr í vikunni. Óvissa sé um framhaldið.

Í bréfinu segir að Hjallastefnan hafi áður fengið vilyrði til nýbyggingar á lóð í Öskjuhlíð, en stjórn Hjallastefnunnar telji nú hvorki fjárhagslegar forsendur né nægur tími til að byggja þar nýtt skólahúsnæði.

Stjórnendur Hjallastefnunnar hafi leitað til Reykjavíkurborgar um áframhald skólastarfs Barnaskólans í Reykjavík í húsnæði Korpuskóla, en viðræðurnar hafi ekki skilað árangri enn sem komið er.

„Við munum áfram leita að húsnæði fyrir Öskju hjá borginni í nálægð Öskjuhlíðar. Samkvæmt fréttum stendur til að reisa leikskóla á Nauthólsvegi 81 og mikil þörf er fyrir leikskóla á svæðinu. Við teljum mikilvægt að foreldrar og börn hafi val um Hjallastefnuskóla og munum leita samstarfs um það,“ segir í bréfinu.

Skilja ef foreldrar leiti annað

Í bréfinu til foreldra segir að stjórnendur Hjallastefnunnar hafi skilning á því að foreldrar veldi að leita til annarra skóla með börnin vegna þeirrar óvissu sem uppi er.

Stjórnin segist þó langt frá því að vera búin að gefast upp og hefur nú sent rökstutt erindi til borgarráðs þar sem óskað er eftir því að Korpuskóli í Grafarvogi nýtist til reksturs Barnaskóla Hjallastefnunnar.

Leikskólinn Askja hóf göngu sína í september 2009.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.