Innlent

Út­gefandi Moggans biðst af­sökunar á nafn­lausri bólu­efnis­aug­lýsingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Auglýsingin birtist á heilsíðu í Morgunblaðinu á uppstigningardag. Framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Árvarkri sagði Vísi í gær að auglýsingin hefði birst nafnlaust fyrir mannleg mistök.
Auglýsingin birtist á heilsíðu í Morgunblaðinu á uppstigningardag. Framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Árvarkri sagði Vísi í gær að auglýsingin hefði birst nafnlaust fyrir mannleg mistök. Vísir/Egill

Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, baðst afsökunar á að auglýsing um aukaverkanir bóluefna gegn kórónuveirunni hefði birst nafnlaus fyrir mistök í blaðinu á uppstigningardag. Forstjóri Lyfjastofnunar lýsti auglýsingunni sem villandi og henni hafi virst ætlað að ala á ótta við bólusetningar.

Í heilsíðuauglýsingunni sem birtist í Morgunblaðinu í gær var auglýst eftir tilkynningum um mögulegar aukaverkanir bóluefna gegn kórónuveirunni. Var fólk þar hvatt til þess að senda inn tilkynningar til Lyfjastofnunar með tölvupósti eða í síma. Enginn var skráður fyrir auglýsingunni en henni lauk með slagorði almannavarna í kórónuveirufaraldrinum.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði Vísi í gær að listinn yfir aukaverkanir sem kom fram í auglýsingunni væri ekki í samræmi við upplýsingar stofnunarinnar. Þar var andlát, blinda og lömum talin upp sem aukaverkanir bólusetningar og sagði Rúna að svo virtist sem því væri ætlað að vekja hræðslu hjá fólki.

Í athugasemd frá Árvakri sem birtist með frétt um málið í Morgunblaðinu í morgun kom fram að vegna mistaka hefði auglýsingin verið birt þrátt fyrir að hún væri ekki merkt auglýsanda. Jafnvel hefði mátt ráða af auglýsingunni að hún væri frá Lyfjastofnun. Baðst útgefandinn velvirðingar á mistökunum.

Fyrirtækið Bjuti ehf., sem er í eigu Vilborgar Bjarkar Hjaltested, keypti auglýsinguna. Vilborg vildi ekki segja Vísi hvernig hún hefði fjármagnað kaupin á auglýsingunni né hvers vegna hún hefði ekki lagt nafn sitt eða fyrirtækisins við hana.

Hélt hún því ranglega fram að Lyfjastofnun hefði „viðurkennt“ að sextán manns hefðu látið lífið á Íslandi vegna bólusetningar gegn Covid-19. Virtist hún þar vísa til tilkynninga um mögulegar aukaverkanir bóluefna hér á landi. Tilkynn hefur verið um andlát sextán einstaklinga eftir að þeir voru bólusettir gegn veirunni. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að um orsakasamhengi hafi verið að ræða á milli dauðsfallanna og bólusetningarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.