Erlent

Vilja að sak­sóknarar svari fyrir meintan leka

Sylvía Hall skrifar
Lögreglumennirnir fjórir sem eru ákærðir vegna dauða Georges Floyd. Frá vinstri: Derek Chauvin, J. Alexander Kueng, Thomas Lane og Tou Thao.
Lögreglumennirnir fjórir sem eru ákærðir vegna dauða Georges Floyd. Frá vinstri: Derek Chauvin, J. Alexander Kueng, Thomas Lane og Tou Thao. AP/lögreglustjórinn í Hennepin-sýslu

Lögmenn þriggja fyrrum lögregluþjóna í Minneapolis, sem hafa verið ákærðir í tengslum við dauða George Floyd, vilja að saksóknarar í málinu svari eiðsvarnir fyrir það hvort þeir beri ábyrgð á upplýsingaleka til fjölmiðla.

Upplýsingarnar sem um ræðir snúa að máli lögregluþjónsins Derek Chauvin sem var nýverið dæmdur fyrir morðið á George Floyd. Chauvin var ákærður fyrir morð af annarri og þriðju gráðu sem og fyrir manndráp án ásetnings. Kviðdómarar sakfelldu hann í öllum ákæruliðum.

Í febrúar síðastliðnum greindu ónafngreindir embættismenn frá því að Chauvin hefði gert samkomulag um að játa á sig morð af þriðju gráðu gegn vægari refsingu, en að William Barr, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði komið í veg fyrir samkomulagið. Höfðu yfirvöld ætlað að ljúka málinu með skjótum hætti í ljósi mikillar mótmælaöldu sem reið yfir Bandaríkin í kjölfar dauða Floyd en Barr þótti rannsókn málsins ekki fullnægjandi á því stigi.

Lögmenn þeirra þriggja lögregluþjóna sem nú eru ákærðir segja fréttaflutning af samkomulagi Chauvin við yfirvöld hafa skaðað málsvörn hans. Ríkið ætti því að bera ábyrgð á því að trúnaðarupplýsingum hafi verið lekið í fjölmiðla.

Ríkissaksóknarinn Keith Ellison, sem fer fyrir því embætti sem annast meðferð málsins, hefur hafnað öllum fullyrðingum um að embætti hans komi að lekanum með nokkrum hætti.


Tengdar fréttir

Fjórir lögreglumenn ákærðir vegna dauða Floyd

Alríkisákærudómstóll í Bandaríkjunum hefur gefið út ákæru á hendur fjórum fyrrverandi lögreglumönnum vegna dauða Georges Floyd í Minneapolis í fyrra. Fjórmenningarnir eru sakaðir um að hafa vísvitandi brotið á borgararéttindum Floyd þegar þeir handtóku hann.

Lögmaður Chauvins fer fram á ný réttarhöld

Lögmaður Dereks Chauvin, fyrrverandi lögregluþjónn sem var nýverið dæmdur fyrir að myrða George Floyd í Minneapolis, hefur farið fram á að ný réttarhöld um málið fari fram. Tvær vikur eru síðan Chauvin var sakfelldur en Eric Nelson, lögmaðurinn, segir þau hafa verið ósanngjörn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×