Íslenski boltinn

Arnór Borg: Hefði átt að klára þetta

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Borg í leik á síðustu leiktíð.
Arnór Borg í leik á síðustu leiktíð. vísir/vilhelm

Arnór Borg Guðjohnsen, sóknartengiliður Fylkis, brást bogalistin á vítapunktinum í 1-1 jafntefli við KR í Árbæ í kvöld. Hann segir Fylki hafa átt skilið að taka öll stigin þrjú.

„Ég er sáttur við frammistöðuna hjá okkur og finnst við eiga skilið að taka þetta. Ég hefði átt að klára þetta víti en ég valdi horn og Beitir varði það vel. Mér fannst vítið ekkert of slæmt, hann bara valdi rétt horn og náði að verja það.“ sagði Arnór eftir leik.

Fylkir stýrði leiknum á stórum köflum og fékk án efa betri færi en KR-ingar. Arnór Sveinn Aðalsteinsson bjargaði á línu snemma í síðari hálfleik og þá fékk Þórður Gunnar Hafþórsson gott færi í lokin.

„Við sýndum mjög mikla baráttu og spila ágætlega, við náðum að hreyfa þá aðeins og fannst við eiga að klára þetta. Ég er svekktur að við höfum ekki náð þremur punktum.“ sagði Arnór en leikurinn er annar í röð þar sem Fylkir hefðu hæglega getað tekið þrjú stig. HK jafnaði gegn Árbæingum í uppbótartíma í 2-2 jafntefli í síðustu umferð. Fylkismenn eru aðeins með tvö stig eftir fyrstu þrjá leikina en Arnór segir þetta allt á réttri leið.

„Það eru bara þrír leikir búnir og við höldum bara áfram að fókusa á næstu leiki. Ég er alveg viss um að við munum sækja þrjá punkta á móti Leikni.“

Líkt og Arnór nefndi mætir Fylkir liði Leiknis í Breiðholti í næstu umferð en þeir síðarnefndu töpuðu 3-0 fyrir KA fyrr í kvöld. Leikurinn fer fram á sunnudagskvöld.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.